Skoðun

Virðis­auka­skattur í ferða­þjónustu: Skatt­fríðindi eða röng túlkun? Eðli virðis­auka­skatts, al­þjóð­legt sam­hengi og hlut­verk ferða­þjónustunnar sem gjaldeyrisskapandi út­flutnings­greinar

Þórir Garðarsson skrifar

Í opinberri umræðu er því stundum haldið fram að ferðaþjónustufyrirtæki njóti sértækra skattfríðinda vegna þess að þau kaupa aðföng og fjárfesta í tækjum og búnaði með 24% virðisaukaskatti (VSK) en selja þjónustu sína með 11% VSK. Þessar fullyrðingar byggja á misskilningi um eðli virðisaukaskatts og hlutverki fyrirtækja í skattheimtunni. Til að skýra málið betur er nauðsynlegt að útskýra grundvallaratriði VSK-kerfisins og alþjóðlegt samhengi þess.

Grunnatriði virðisaukaskatts

Fyrirtæki greiða í raun ekki virðisaukaskatt úr eigin vasa, heldur innheimta hann fyrir hönd ríkisins. VSK skapar hvorki tekjur né kostnað fyrir fyrirtækin. VSK er neysluskattur sem lendir á endanlegum neytanda. Fyrirtækin eru einungis milliliðir í þessu ferli.

Virðisaukaskattur af vörum og þjónustu sem fyrirtæki kaupir verður að innskatti sem dregst frá útskatti, þeim skatti sem fyrirtækið innheimtir af sínum viðskiptavinum. Ef útskattur er lægri en innskattur, til dæmis vegna fjárfestinga eða meiri innkaupa á vörum og þjónustu sem bera hærra skattþrep, þá hefur fyrirtækið lagt út meiri skatt en það hefur innheimt og á rétt á endurgreiðslu mismunarins. Þetta er hvorki hagnaður né styrkur heldur einföld leiðrétting í hlutlausu skattkerfi.

Alþjóðlegt samhengi

Lægra VSK-þrep í ferðaþjónustu er ekki séríslensk útfærsla heldur alþjóðlega viðurkennd stefna. Langflest ríki hafa lægri VSK á ferðaþjónustu og skyldar greinar til að styrkja samkeppnishæfni og gjaldeyrisöflun greinarinnar. Þessi stefna endurspeglar verðnæmni ferðaþjónustunnar sem þarf að vera samkeppnishæf á alþjóðlegum mörkuðum. Hækkun VSK myndi því veikja stöðu íslenskrar ferðaþjónustu verulega gagnvart samkeppnislöndum sem bjóða oft lægri skattheimtu. Það er jú alltaf viðskiptavinurinn – neytandinn – sem á endanum borgar virðisaukaskattinn.

Ferðaþjónusta sem útflutningsgrein

Ferðaþjónustan skapar umtalsverðar gjaldeyristekjur fyrir Ísland og telst efnahagslega vera útflutningsgrein. Ólíkt öðrum útflutningsgreinum, sem eru almennt undanþegnar VSK, innheimtir ferðaþjónustan hins vegar skattinn af þjónustu sinni og skilar honum í ríkissjóð. Þetta gerir ferðaþjónustuna sérstaka í samanburði við aðrar gjaldeyrisskapandi greinar eins og sjávarútveg og álframleiðslu svo dæmi séu tekin.

Áhrif mannaflsfrekra greina

Ferðaþjónustan er mannaflsfrek atvinnugrein þar sem launakostnaður getur verið frá 40% til 60% rekstrarkostnaðar. Því hefur skattlagning bein áhrif á verð til neytenda og rekstrarafkomu fyrirtækja. Lægra VSK-þrep í ferðaþjónustu er því ekki fríðindi heldur eðlilegt mótvægi við þann háa kostnað sem fylgir greininni.

Niðurstaða

Að kalla núverandi VSK-kerfi í ferðaþjónustu skattfríðindi eða meðgjöf stenst ekki nánari skoðun. Virðisaukaskatturinn er í eðli sínu hlutlaus skattur sem hvílir á neytandanum. Endurgreiðslur vegna mismunar á inn- og útskatti eru einfaldlega leiðrétting á ofgreiddum skatti fyrirtækja til ríkisins, ekki styrkur eða sértæk meðgjöf. Mikilvægt er að umræðan um skattamál ferðaþjónustunnar byggi á réttri skilgreiningu á eðli virðisaukaskattsins og skýrum skilningi á rekstrarumhverfi greinarinnar.

Höfundur er fyrrverandi varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar.




Skoðun

Sjá meira


×