Körfubolti

„Mikil­vægt að okkar uppöldu KR-ingar spili með fé­laginu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, Perla Jóhannsdóttir, Rebekka Rut Steingrímsdóttir og Þorvaldur Orri Árnason hafa öll framlengt samning sína.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, Perla Jóhannsdóttir, Rebekka Rut Steingrímsdóttir og Þorvaldur Orri Árnason hafa öll framlengt samning sína. KR/Gunnar Sverrisson

KR-ingar eru að undirbúa sig fyrir næsta tímabil í körfuboltanum og hafa nú gengið frá samningum við tólf íslenska leikmenn til að spila með báðum meistaraflokkum félagsins á komandi tímabili. Bæði liðin spila í Bónus deildinni á komandi tímabili eftir að konurnar unnu sér aftur sæti í deild þeirra bestu.

KR-ingar voru þarna að ganga frá samningum við uppalda KR-inga sem léku lykilhlutverk með meistaraflokkum félagsins á síðasta tímabili.

Þórir til 2027 en Þorri til 2026

Fyrirliði karlaliðsins, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, hefur framlengt samningi sínum til ársins 2027. Auk hans hafa þeir Veigar Áki Hlynsson, Orri Hilmarsson, Lars Erik Bragason og Hallgrímur Árni Þrastarson samið til 2027 og Þorvaldur Orri Árnason (Þorri) til 2026.

„Ég er gríðarlega ánægður með þessar undirskriftir. Það er mikilvægt að okkar uppöldu KR-ingar spili með félaginu og frábært að við náum að halda í kjarnann í liðinu frá því í fyrra. Við ætlum okkur stóra hluti á næstu árum og ég veit að strákarnir eru tilbúnir í það verkefni,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari karlaliðsins í fréttatilkynningu.

Áttum góða spretti í vetur

„Ég er mjög ánægður með það að framlengja og geta haldið áfram með þetta verkefni sem við erum í hér í KR. Við áttum góða spretti í vetur en við ætlum okkur meira og ég er spenntur fyrir komandi tímabili,“ sagði hinn öflugi Þórir Guðmundur Þorbjarnarson.

Fyrirliði kvennaliðsins, Perla Jóhannsdóttir, hefur einnig ákveðið að taka slaginn með KR liðinu í Bónus deild kvenna næsta vetur. Auk hennar hafa þær Rebekka Rut Steingrímsdóttir, Anna María Magnúsdóttir, Anna Margrét Hermannsdóttir, Lea Gunnarsdóttir og Arndís Rut Matthíasdóttir framlengt samningum sínum við KR til 2027.

Að festa KR í sessi í efstu deild

„Það er mjög ánægjulegt að vera búin að semja. Ég er mjög spennt fyrir þessu tímabili og hlakka til að festa KR í sessi í efstu deild kvenna,“ sagði Perla Jóhannsdóttir.

„Það er gífurlegt fagnaðarefni fyrir okkur að hafa náð samningum við þessa leikmenn. KR hefur alltaf lagt áherslu á það að ná árangri í krafti okkar uppöldu leikmanna og þetta er stór dagur fyrir félagið. Í báðum liðum erum við að byggja á þessum öfluga kjarna heimafólks og ætlum okkur stóra hluti á næsta tímabili,“ sagði Egill Ástráðsson formaður körfuknattleiksdeilda KR í fyrrnefndri fréttatilkynningu frá KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×