Íslenski boltinn

Alexander Rafn yngsti marka­skorari í sögu efstu deildar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexander Rafn (til vinstri) ásamt Sigurði Breka Kárasyni og Aroni Sigurðarsyni fyrr á leiktíðinni.
Alexander Rafn (til vinstri) ásamt Sigurði Breka Kárasyni og Aroni Sigurðarsyni fyrr á leiktíðinni. KR

Alexander Rafn Pálmason varð í kvöld yngsti byrjunarliðsmaður í sögu efstu deildar karla í knattspyrnu. Ekki nóg með það heldur er hann einnig yngsti markaskorari í sögu efstu deildar.

Alexander Rafn er í byrjunarliði KR sem er þegar þetta er skrifað að gera 1-1 jafntefli við ÍBV. Alexander Rafn kom KR yfir snemma leiks en ÍBV svaraði með marki eftir vel útfærða hornspyrnu. Með marki sínu varð Alexander Rafn sem fyrr segir yngsti leikmaðurinn til að skora í efstu deild. Metið átti Eiður Smári Guðjohnsen en það hefur nú verið slegið.

Alexander Rafn komst í sögubækurnar á síðustu leiktíð þegar hann varð yngsti leikmaður til að taka þátt í leik í efstu deild. Hann gerði gott betur í kvöld. 

Athygli vekur að landsliðs- og atvinnumaðurinn fyrrverandi Eiður Smári, sem átti metið, skoraði einnig gegn ÍBV. Þórarinn Kristjánsson, sem var í öðru sæti listans, skoraði einnig sitt fyrsta mark í efstu deild gegn Eyjamönnum.

Aðeins einn leikmaður til viðbótar hefur skorað fyrir sextán ára afmælið. Sá heitir Viktor Bjarki Daðason og leikur í dag fyrir FC Kaupmannahöfn í Danmörku. Markið skoraði Viktor Bjarki á síðustu leiktíð þegar hann tryggði uppeldisfélagi sínu Fram stig gegn Val.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×