Innlent

Björgunar­sveitir vilja undan­þágu frá virðis­auka­skatti

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Yfir 500 félagar sóttu landsþing Landsbjargar á Selfossi um helgina.
Yfir 500 félagar sóttu landsþing Landsbjargar á Selfossi um helgina. Landsbjörg

Slysavarnarfélagið Landsbjörg segir nauðsynlegt að rekstrar- og skattaumhverfi björgunarsveitanna sé ekki óhóflega íþyngjandi, og eðlilegt væri að veita þeim undanþágu frá virðisaukaskatti.

Yfir 500 félagar sóttu landsþing Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem haldið var á Selfossi dagana 9. -10. maí.

„Starfsemi björgunarsveita er óumdeilanlega þýðingarmikil í íslensku samfélagi. Á landinu eru starfræktar yfir 90 slíkar sveitir, sem mannaðar eru sjálfboðaliðum, er sinna margvíslegu björgunar- og slysavarnarstarfi,“ segir í ályktun Landsbjargar.

Þar segir að í ljósi mikilvægis björgunarsveita og þeirra lykilhlutverki í almannavarna- og neyðarviðbragði sé nauðsynlegt að rekstrar- og skattaumhverfi þeirra sé skýrt og ekki óhóflega íþyngjandi.

„Breyting þessi er til þess ætluð að hlúa að rekstri björgunarsveita og viðurkenndra heildarsamtaka þeirra með það að markmiði að umræddir aðilar geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki um ókomna tíð líkt og systursamtök erlendis.“

„Slíkar undanþágur hafa þegar verið veittar á öðrum sviðum samfélagsins þegar sérstakar aðstæður réttlæta það, og því er eðlilegt að horft verði til sjálfboðaliða samtaka í hópi viðbragðsaðila og þeim veitt undanþága frá virðisaukaskatti vegna starfsemi sinnar,“ segir í ályktun.

Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar 2025.Landsbjörg

Vilja tryggja viðbragðsaðilum húsnæði

Þá var einnig skorað á stjórnvöld að tryggja Samhæfingarstöð Almannavarna og tengdum viðbragðsaðilum sameiginlegt húsnæði við hæfi sem allra fyrst.

„Skipulag og rekstur samhæfingarstöðvar og tengdra viðbragðsaðila í sameiginlegu húsnæði eykur verulega skilvirkni og auðveldar samhæfingu viðbragða. Þegar viðbragðsaðilar deila aðstöðu skapast betri skilyrði fyrir samvinnu, miðlun upplýsinga og samræmdrar ákvarðanatöku í neyðartilvikum.“

Undanfarið hafi viðbragðsaðilar þurft að búa við dreifða starfsemi í ólíkum húsakynnum, meðal annars vegna viðgerða og ástands núverandi húsnæðis.

„Þetta hefur skapað óæskilegar hindranir í daglegri starfsemi og dregið úr skilvirkni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×