Fótbolti

Beckham reiður: Sýnið smá virðingu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
David Beckham er að ganga í gegnum erfiða tíma í vinnunni.
David Beckham er að ganga í gegnum erfiða tíma í vinnunni. vísir/getty

Það fauk í David Beckham, eiganda Inter Miami, eftir að hans lið hafði steinlegið, 4-1, gegn Minnesota United í bandarísku MLS-deildinni.

Þetta er stærsta tap Miami síðan Lionel Messi gekk í raðir félagsins fyrir tveimur árum síðan.

Messi spilaði og skoraði í leiknum. Það reyndist ekki vera nóg og Miami hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni.

Samfélagsmiðlateymi Minnesota var greinilega í miklu stuði eftir leik því það birti mynd úr leiknum með setningunni „Bleika platfélagið“ með vísun í litinn á búningum liðs Miami. Einnig var bent á að liðið væri komið upp fyrir Miami í töflunni.

Þessir stælar fóru alls ekki vel í Beckham sem umsvifalaust breyttist í virkan í athugasemdum.

„Sýnið smá virðingu. Kunnið að fagna með smá reisn,“ skrifaði reiður Beckham en það stöðvaði ekki samfélagsmiðlateymið sem var hvergi nærri hætt.

„Saga frekar en „hæp“. Menning ofar peningum,“ stóð á næstu mynd frá teyminu. Virkur í athugasemdum Beckham var fljótur að bregðast við.

„Virðing ofar öllu“.

Mótlætið virðist ekki fara sérstaklega vel með Beckham og verður áhugavert að sjá hvort hann haldi áfram á sömu braut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×