Innlent

Fær um 90 milljónir fyrir verkið sem hópur Eyja­manna vill ekki sjá

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Einhvern veginn svona er gert ráð fyrir að verkið muni líta út þegar það hefur verið sett upp á Eldfelli.
Einhvern veginn svona er gert ráð fyrir að verkið muni líta út þegar það hefur verið sett upp á Eldfelli. Olafur Eliasson, Visualisation for The Wanderer’s Perspective, 2023; Commissioned by Vestmannaeyjabær © 2023 Olafur Eliasson

Listamaðurinn Ólafur Elíasson fær hátt í 88,5 milljónir króna frá ríkinu og Vestmanneyjabæ fyrir minnisvarða um eldgosið í Heimaey sem til stendur að reisa á Eldfelli. Þá er ótalinn kostnaður vegna gerðar göngustígs og annarra framkvæmda sem fyrirhugaðar eru á svæðinu en áætlaður heildarkostnaður gæti numið allt að 220 milljónum. Ríflega sex hundruð manns hafa skrifað undir undirskriftalista þar sem minnisvarðanum er mótmælt.

Samkvæmt samningi bæjarins við félag dansk-íslenska listamannsins Ólafs Elíassonar fær félagið 600 þúsund evrur fyrir verkið sem ber vinnutitilinn Sjónarhorn flakkarans (e. Wonderer‘s Perspective). Sé miðað við meðalgengi dagsins í dag jafngildir þetta hátt í 90 milljónum króna. Eyjafréttir sögðu fyrst frá upphæðinni en miðillinn fékk samninginn afhentan eftir að hafa þurft að leita til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál en Vestmannaeyjabær neitaði upphaflega að afhenda Eyjafréttum samninginn.

Áætla 100 milljónir í verkið og annað eins í göngustíginn

Meðfylgjandi myndir frá Studio Ólafur Elíasson, SOE, sýna hvernig verkið á að líta út þegar það er tilbúið.

Verkið hefur fengið vinnuheiti sem á íslensku má þýða sem Sjónarhorn flakkarans.Olafur Eliasson, Visualisation for The Wanderer’s Perspective, 2023; Commissioned by Vestmannaeyjabær © 2023 Olafur Eliasson
Verkið á að virkja skilningarvit gesta með litabreytum sem hannaðar eru í kringum staðsetningu verksins með tillit til sólar og landslags.Olafur Eliasson, Visualisation for The Wanderer’s Perspective, 2023; Commissioned by Vestmannaeyjabær © 2023 Olafur Eliasson

„Það er ennþá verið að gera ráð fyrir 200 til 220 milljónum í heildina. Það sem er öruggt það er allur hluturinn sem snýr að listamanninum sjálfum og verkinu, það er að segja þessum kúpli, eða þessu pavillioni eins og hann kallar það sjálfur. Það eru um 100 milljónir, það fer eftir því hvað gengið er á evrunni á hverjum tíma,“ segir Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar í Vesmannaeyjum.

Þá er gert ráð fyrir að minnsta kosti öðru eins vegna göngustígarins sem gæti kostað á bilinu 100 til 120 milljónir að sögn Páls. „Það er ekki búið að endurgera kostnaðaráætlunina fyrir hann vegna þess að það er ekki hægt að gera það nákvæmlega fyrr heldur en að skipulagsvinnunni er endanlega lokið og hún er bara að klárast þessa dagana,“ segir Páll. Þar af styður ríkissjóður verkefnið um 60 milljónir.

Páll birti þessa mynd á samfélagsmiðlum af sér ásamt listamanninum Ólafi Elíassyni og Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra frá íbúafundinum sem fram fór í lok mars.Facebook

Ekki er gert ráð fyrir kostnaði vegna uppbyggingar bílastæðis inni í þessum tölum, en að sögn Páls hefði þurft að ráðast í gerð bílastæða alveg óháð uppsetningu listaverksins. „En það eru ekki stórar upphæðir í þessu samhengi og hefði þurft að ráðast í þá framkvæmd alveg burtséð frá þessu listaverki,“ segir Páll.

Um 13% íbúa ekki hrifnir af hugmyndinni

Fram kom í fréttum í desember í fyrra að hafin væri undirskriftasöfnun þar sem áformum um minnisvarðann er mótmælt. „Við undirrituð mótmælum fyrirhugaðri röskun á ásýnd, og tilheyrandi kostnaði við gerð listaverks á Eldfelli,“ segir um listann en undir hann skrifuðu 602 á meðan undirskriftasöfnun stóð yfir. Íbúar í Vestmannaeyjum eru um 4.500 talsins.

Sjá einnig: Vilja ekki sjá listaverk á Eldfelli

Fjallað var um listann við umfjöllun málsins í umhverfis- og skipulagsráði bæjarins en ráðið samþykkti þann 28. apríl síðastliðinn tillögu að breyttu aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 vegna uppbyggingar listaverksins og tillögu að deiliskipulagi Eldfells. Fjallað var um verkefnið á íbúafundi í mars en í fundargerð ráðsins segir að það sé mat sérfræðings sem fenginn var til að meta umhverfisáhrif að framkvæmdir vegna gönguleiðar á svæðinu séu afturkræfar. Fulltrúar D-lista í minnihluta sátu hjá við afgreiðslu málsins og taka í bókun undir áhyggjur íbúanna sem skrifuðu undir listann.

„Meirihluti E- og H- lista eru enn sannfærð um að umrætt listaverk verði bænum til sóma og lýsa yfir ánægju með að skipulagsvinnu sé að ljúka,” segir hins vegar í bókun meirihlutans.

Ríkið styður verkefnið um 60 milljónir

Samningurinn vegna kaupa á sérhönnuðu verki eftir listamanninn var undirritaður í maí í fyrra en tilefnið er fimmtíu ára goslokaafmæli í Heimaey. Við sama tilefni var einnig undirritaður samningur við menningar- og viðskiptaráðuneytið um verkefnastyrk vegna aðkomu ríkisins að listaverkinu.

„Listaverkið verður einstakt á heimsvísu og það eina sem inniheldur eldfjall. Verkið er verkfræðilega flókið og samanstendur af listaverki og gönguleið sem staðsett verður á Eldfelli og mun virkja skilningarvit gesta með litabreytum sem hannaðar eru í kringum staðsetningu verksins með tillit til sólar og landslags,” sagði meðal annars um verkið í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ á sínum tíma.

Annað sjónarhorn.Olafur Eliasson, Visualisation for The Wanderer’s Perspective, 2023; Commissioned by Vestmannaeyjabær © 2023 Olafur Eliasson

Þá var hönnun og undirbúningur við verkið þegar hafinn en ríkisstjórnin samþykkti árið 2022 að veita tvær milljónir til bæjarins vegna hugmyndavinnu við minnisvarða auk þess sem skipuð var nefnd sem falið var að annast undirbúning að kaupum og uppsetningu minnisvarðans.

Í síðustu viku var síðan undirritaður samningur milli atvinnuvegaráðuneytisins og Vestmannaeyjabæjar um verkefnastyrk til gerðar göngustígs í hlíðum Eldfells í tengslum við verkið. Stuðningur ráðuneytisins við verkefnið nemur sextíu milljónum króna en gildistími samningsins er til ársloka 2025.

Gönguleiðin á að liggja frá verkinu og hringinn í kringum gíginn í Eldfelli. Saman eiga listaverkið og gönguleiðin að mynda eina sjónræna og listræna heild þar sem eldgígurinn sjálfur er í miðpunkti að því er segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×