Innlent

„Al­gjört þjófstart á sumrinu“

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sólin lék við gesti á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum í morgun sem lágu í sólbaði.
Sólin lék við gesti á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum í morgun sem lágu í sólbaði. Vísir/aðsend

Gestum á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum hefur fjölgað í vikunni og búist við fleiri bætist við um helgina þegar hitinn gæti farið í allt að tuttugu og fimm stig. Framkvæmdastjóri tjaldsvæðisins segir einstaka veðurblíðu hafa verið á svæðinu undanfarið sem sé nú í blóma líkt og um mitt sumar sé að ræða.

Blíðskaparveðri er spáð á landinu öllu um helgina og óvenju miklum hlýindum miðað við árstíma. Ef veðurspár ganga eftir gæti hitinn jafnvel náð tuttugu og fimm stigum á Egilsstöðum á laugardaginn. Þangað hafa gestir tekið að drífa að í vikunni en í nótt gistu hundrað tuttugu og fimm manns á tjaldsvæðinu. Heiður Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri tjaldsvæðisins á Egilsstöðum á von fleiri gestum um helgina.

„Það er nú bara hægt og rólega búið að vera fjölga fólki hérna á tjaldsvæðinu alla vikuna og það er búið að vera alveg dásamlegt veður alla vikuna og stefnir í áframhald á því. Maður sér alveg að pöntunum á bókunarsíðunni hefur fjölgað töluvert og símhringingum og annað þannig það er greinilegt að margir hverjir að stefna austur í blíðuna hjá okkur.“

Heiður Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri tjaldsvæðisins segir oft mikla veðursæld á Egilsstöðum. Vísir/aðsend

Hún segir gestina sem dvelja á tjaldsvæðinu í dag bæði erlenda ferðamenn og Íslendinga í leit að sól.

„Þetta er náttúrulega ekki dæmigerður sumarleyfistími hjá Íslendingum sem eru náttúrulega bara fastir með börn enn þá í skóla. Þannig að fólk er ekki jafn sveigjanlegt að stökkva til. Maður sér allavega eldri borgarana okkar sem eru hættir að vinna og margir sem að mér heyrist samt ætla að leggja það á sig að koma alla leið austur um helgina til að fá smá vítamín í kroppinn og sól.“

Tjaldsvæðið sé stórt og nóg pláss fyrir alla sem vilja koma. Þá segir hún þennan mikla hita óvenjulegan miðað við árstíma.

„Það er allt komið í blóma. Við erum að upplifa svona tímabil endalaust sem minna bara á, fólk er að bera okkur saman við Tenerife, en jú vissulega á þessum tíma að allt sé sprungið út og það sé orðið svo grænt og fallegt að það er bara eins og við séum í einhverjum öðrum mánuði. Það er bara eins og við um mánaðamótin júní júlí eða miðjum júlí . Bara algjört þjófstart á sumrinu og við vonum að þetta sé bara vísbending um það sem koma skal hérna í sumar hjá okkur.“


Tengdar fréttir

„Dýr­legt veður eins langt og séð verður“

Veðurfræðingur segir dýrlegt veður verða á öllu landinu verða næstu daga. Fólk skuli fara varlega með eld og vökva þær plöntur sem það vill að lifi þurrkatíðina af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×