Golf

Scheffler tók for­ystuna fyrir loka­daginn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Efsti kylfingur heimslistans er í efsta sætinu fyrir lokadag PGA meistaramótsins.
Efsti kylfingur heimslistans er í efsta sætinu fyrir lokadag PGA meistaramótsins. Scott Taetsch/PGA of America via Getty Images

Efsti kylfingur heimslistans, Scottie Scheffler, átti stórfínan laugardag og leiðir með þremur höggum fyrir lokadag PGA meistaramótsins í golfi.

Vonskuveður í Norður-Karólínu fylki hefur hrellt kylfinga alla helgina en Scheffler lét það ekki hafa áhrif og fór hringinn í gær á aðeins 65 höggum, síðustu fimm holurnar á fimm undir pari. Sem setur hann í efsta sæti mótsins, ellefu undir pari eftir þrjá daga, 54 holur.

Scheffler var í svipaðri stöðu á Masters 2022 og 2024, með forystuna eftir 54 holur. Í bæði skipti fagnaði hann sigri á mótinu og gæti tryggt sinn þriðja risamótstitil í dag.

Svíinn Alex Noren er annar, átta höggum undir pari. Bandaríkjamennirnir Davis Riley og J.T. Poston deila þriðja sætinu, sjö höggum undur pari.

Spánverjinn Jon Rahm og Bryson DeChambeau tóku báðir toppsætið um stutta stund í gær, áður en Scheffler átti endasprettinn góða, en Rahm og DeChambeau eru sem stendur sex og fimm höggum undir pari.

Bein útsending frá lokadegi PGA meistaramótsins verður á Vodafone Sport frá klukkan 17:00. Efstu kylfingar mótsins eiga rástíma um klukkustund síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×