Lífið

Billy Joel greindist með heilasjúkdóm

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Billy Joel ásamt grínistanum Trevor Noah og Laufeyju Lín á Grammy-verðlaunahátíðinni á síðasta ári.
Billy Joel ásamt grínistanum Trevor Noah og Laufeyju Lín á Grammy-verðlaunahátíðinni á síðasta ári. Getty/Kevin Winter

Bandaríski tónlistarmaðurinn Billy Joel hefur aflýst fjölda væntanlegra tónleika vegna þess að hann hefur verið greindur með heilasjúkdóm.

Frá því greinir hann í færslu á samfélagsmiðlum að hann hafi greinst með dulið vatnshöfuð. Það myndast þegar afrennsli mænuvökva truflast og vatnsmagn eykst inni í höfðinu.

Vatnshöfuð getur. samkvæmt Vísindavefnum, valdið ýmsum einkennum frá miðtaugakerfi, svo sem ógleði, uppköstum, sjónsviðsbreytingum og jafnvel skertri meðvitund. Það leiðir nánast undantekningarlaust til dauða sé ekkert að gert.

Í færslu sem samfélagsmiðlateymi hans birti í dag kemur fram að ástand hans hafi versnað í kjölfar tónleikahalds undanfarið. Það valdi truflunum á heyrn, sjón og jafnvægisskyni.

„Mér þykir afskaplega leitt að valda aðdáendum okkar vonbrigðum en þakka fyrir skilninginn,“ er haft eftir Joel í færslunni.

Hann stefndi í tónleikaferðalag um Bandaríkin og Bretland þar sem til stóð að hann kæmi fram á sautján tónleikum. Hann hafði áður frestað tónleikaröðinni um fjóra mánuði vegna þess að hann gekkst undir aðgerð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.