Erlent

Fjöldi flug­ferða felldur niður vegna verk­falls franskra flug­um­ferðar­stjóra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðgerðirnar munu hafa áhrif á að minnsta kosti 30 þúsund farþega Ryanair.
Aðgerðirnar munu hafa áhrif á að minnsta kosti 30 þúsund farþega Ryanair. Getty/Nik Oiko

Fjölda flugferða hefur verið aflýst vegna verkfallsaðgerða í Frakklandi en áhrifin eru sögð munu teygja sig víðar um Evrópu. Ryanair hefur aflýst 170 flugferðum, sem munu hafa áhrif á um 30 þúsund farþega, að sögn félagsins.

Um er að ræða tveggja daga verkfallsaðgerðir tveggja verkalýðsfélaga flugumferðarstjóra, sem hafa þegar haft þau áhrif að um fjórðungi flugferða á flugvöllum Parísarborgar hefur verið aflýst og  helmingi flugferða til og frá Nice.

Michael O'Leary, forstjóri Ryanair, hefur sakað flugumferðarstjórana um að „halda evrópskum fjölskyldum í gíslingu“ en aðgerðirnar hafa ekki aðeins áhrif á flug til og frá Frakklandi heldur einnig yfir lofthelgi Frakklands.

Flugumferðarstjórarnir hafa farið fram á úrbætur varðandi vinnuaðstæður sínar en samgönguráðherrann Philippe Tabarot hefur gagnrýnt bæði kröfur þeirra og tímasetningu aðgerðanna, á háannatíma.

Regnhlífarsamtökin Airlines for Europe segja verkfallsaðgerðirnar gjörsamlega „óþolandi“.

Ef marka má áætlaðar brottfarir og komur á Keflavíkurflugvelli virðast aðgerðirnar ekki hafa áhrif á flugferðir Icelandair eða Play til Frakklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×