Íslenski boltinn

ÍR á toppinn en fjögur rauð spjöld og allt vit­laust í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, fékk rautt spjald í uppbótatíma leiksins
Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, fékk rautt spjald í uppbótatíma leiksins Vísir/Diego

ÍR-ingar endurheimtu toppsætið í Lengjudeild karla í fótbolta eftir endurkomusigur á Fylki í Árbænum í kvöld. Fjölnismenn komust upp úr fallsæti og sendu Leiknismenn þangað í staðinn.

ÍR vann 2-1 sigur á Fylki í Árbænum en Fylkismenn fengu þrjú rauð rauð spjald í uppbótatíma leiksins. ÍR-ingar fengu líka eitt rautt spjald.

Njarðvíkingar höfðu náð toppsætinu með stórsigri í gær en ÍR-ingar eru einu stigi á undan þeim eftir leik kvöldsins.

Emil Ásmundsson kom Fylki í 1-0 á 50. mínútu en Víðir Freyr Ívarsson jafnaði þremur mínútum síðar. Bergvin Fannar Helgason skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 83. mínútu.

Allt varð síðan vitlaust í uppbótatíma þegar fjögur rauð spjöld fóru á loft. Reynsluboltarnir hjá Fylki, Emil Ásmundsson og Ragnar Bragi Sveinsson, fengu báðir rauttt spjald sem og þjálfarinn Árni Freyr Guðnason. ÍR-ingurinn Ívan Óli Santos fékk líka rautt spjald.

Fjölnir mætti í Efra Breiðholt og fór í burtu með öll þrjú stigin eftir 1-0 sigur á Leikni. Bjarni Þór Hafstein skoraði úr vítaspyrnu strax á tíundu mínútu og það mark réði úrslitum í kvöld.

Leiknismenn voru tíu frá 52. mínútu þegar Jón Arnar Sigurðsson fékk sitt annað gula spjald.

Fjölnismenn komust upp fyrir Leikni í töflunni og þar með upp úr fallsæti. Leiknismenn eru aftur á móti komnir í staðinn í þetta óvinsæla fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×