Fótbolti

Segir Glódísi al­gjöra hetju: „Sá bara hversu illa henni leið“

Sindri Sverrisson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir var að glíma við skelfilega kveisu í leiknum á miðvikudaginn, afar ólík sjálfri sér að sögn Ingibjargar Sigurðardóttur sem spilar með henni í vörn Íslands.
Glódís Perla Viggósdóttir var að glíma við skelfilega kveisu í leiknum á miðvikudaginn, afar ólík sjálfri sér að sögn Ingibjargar Sigurðardóttur sem spilar með henni í vörn Íslands. Samsett/Getty

Ingibjörg Sigurðardóttir segir það hafa verið afar erfitt að horfa upp á Glódís Perlu Viggósdóttur kveljast og reyna að koma sér í gegnum leik Íslands við Finnland á EM í fótbolta á miðvikudaginn. Óvissa ríkir um fyrirliðann.

Glódís varð að fara af velli í hálfleik gegn Finnum og hafði fyrri hálfleikurinn tvívegis verið stöðvaður til að hlúa mætti að henni, þar sem hún var með heiftarlega magakveisu.

Ingibjörg var að vanda við hlið Glódísar í íslensku vörninni og þekkti varla makkerinn sinn í því ástandi sem hún var í:

„Það var alls ekki skemmtilegt. Það er ekki oft sem maður sér Glódísi í þessu ástandi og ég held ég hafi aldrei spilað með henni þegar hún er svona. Maður heyrði ekki neitt og sá bara hversu illa henni leið. Það var mjög erfitt,“ sagði Ingibjörg á blaðamannafundi Íslands í gær eins og sjá má í spilaranum hér að neðan.

„Ég vorkenndi henni ekkert smá mikið þarna á vellinum. Hún er algjör hetja að hafa náð 45 mínútum. Ég skil ekki alveg hvernig hún fór að þessu. Það var mjög erfitt að sjá þetta,“ sagði Ingibjörg.

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari sagði á blaðamannafundi í gær að planið væri að Glódís yrði með gegn Sviss. Hún mætti aftur til æfinga í gær en tók ekki fullan þátt og sagði Þorsteinn að meta þyrfti stöðuna eftir nætursvefninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×