Fótbolti

Skýrsla Sindra: Hand­klæðið dugar ekki við þessum tárum

Sindri Sverrisson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir, Sandra María Jessen og aðrar í íslenska hópnum munu þurfa tíma til að jafna sig á niðurstöðunni í kvöld.
Glódís Perla Viggósdóttir, Sandra María Jessen og aðrar í íslenska hópnum munu þurfa tíma til að jafna sig á niðurstöðunni í kvöld. vísir/Anton

Fjölmennasti leikur sem íslenskt kvennalandslið í fótbolta hefur tekið þátt í en um leið ein mesta sorgin sem leikmenn þess hafa þurft að takast á við innan vallar. EM er búið. Því lauk í Bern í kvöld.

Það fór eitt alveg óstjórnlega í taugarnar á þeim 28.000 svissnesku stuðningsmönnum sem sáu sínar konur vinna Ísland 2-0 í kvöld. Það var allur tíminn sem Sveindís Jane Jónsdóttir tók í löngu innköstin sín. Eina raunverulega vopnið sem Ísland virtist geta beitt í kvöld.

Hún sótti sér alltaf handklæði, þurrkaði regnbleytuna af boltanum og gaf sér góðan tíma áður en hún dúndraði boltanum inn í teig. Þannig skapaðist hætta. Öðruvísi ekki. Þetta gerði hún á meðan blístrað var og baulað en allt blístrið breyttist því miður í sigurhróp á síðasta korteri leiksins, þegar Sviss skoraði bæði mörkin sín.

Eftir sátu okkar konur. Flestar tárvotar og í öngum sínum. 

Þetta átti aldrei að fara svona og leikurinn í kvöld var um svo margt jákvæður. Það eru auðvitað frekar vonbrigðin frá því á miðvikudaginn sem valda því að nú er ballið búið, bara eftir hundleiðinlegir þynnkudagar og lokasnúningur gegn Noregi á fimmtudaginn sem skiptir engu máli.

Niðurstaðan hefði hins vegar getað orðið allt, allt önnur. Í kvöld var íslenska liðið líkt sjálfu sér, allar tilbúnar að mæta Sviss af hörku og ekki nokkur taugatitringur sjáanlegur.

Og þó að íslensku stuðningsmennirnir hafi verið í miklum minnihluta, um 2.000 talsins, þá létu þeir þá svissnesku heldur betur hafa fyrir hlutunum. Stundum mátti ekkert heyra nema fagran íslenskan söng og manni leið eins og að pressan sem fylgdi tilefninu gæti farið með heimakonur.

Vonbrigðin leyna sér ekki. Farseðill í 8-liða úrslit endanlega úr sögunni þó að enn sé einn leikur eftir.vísir/Anton

Þær komust reyndar yfir eftir hálftíma leik en sjálfsmark Glódísar Perlu var réttilega dæmt af í varsjánni. Biðin eftir lokaákvörðun var samt taugatrekkjandi og Guð minn góður hvað ég treysti því ekki að hin spænska Marta Huerta De Aza myndi standa í lappirnar og taka dóminn sinn til baka, með alla þessa Svisslendinga í eyrunum og nöldur frá reynsluboltanum Piu Sundhage sem stýrir Sviss. Hún gerði þó rétt á endanum.

Annars var hættan ekki mikil frá Sviss á meðan að löngu og óhemju óvinsælu innköstin hennar Sveindísar sköpuðu hins vegar hættu á hinum enda vallarins. Ingibjörg náði sláarskoti eftir eitt slíkt strax í byrjun, og þrátt fyrir öll varnaðarorð Sundhage þá voru innköstin sífellt hættuleg. Jafnvel þannig að Svisslendingar reyndu að fela handklæðið sem Sveindís þurrkaði boltann með.

Íslenska liðið hélt áfram með svipuðum hætti í seinni hálfleik. Náði að halda aftur af sprækum sóknarmönnum Sviss og það reyndi ekki mikið á Cecilíu í markinu. En Ísland þurfti mark og var farið að færa sig framar á völlinn, og þá kom stunga í magann. Skyndisókn þegar korter var eftir, 1-0 og Ísland á leið úr keppni.

Það trylltist allt á leikvanginum en vonbrigðin skinu úr augum íslensku stelpnanna. Voru nánast eins og vonleysi. Þorsteinn þjálfari reyndi að bæta í sóknarþungann, fækka í vörninni og leggja allt í sölurnar, en það hafði engin áhrif. Íslenska liðið er ekki vant að setja sig í svona hlutverk undir hans stjórn og Sviss var mun líklegra til að bæta við marki en Ísland að jafna, sem varð svo raunin í lokin þegar Alayah Pilgrim sendi 28.000 rauðklædda stuðningsmenn í himnasælu. Seinna markið þýðir að nú þarf Sviss aðeins jafntefli gegn Finnlandi á fimmtudag til að tryggja sig í 8-liða úrslitin.

Ofanritaður dirfðist að benda fyrir mót á nokkrar ástæður fyrir því að það gæti farið illa hjá Íslandi á þessu móti, skiljanlega við litla hrifningu. Ein af þeim var að íslenska liðið væri of háð Sveindísi og Karólínu fram á við, á sama tíma og þær spiluðu aldrei 90 mínútna leiki með sínum félagsliðum í vetur og Sveindís nánast bara notuð sem varamaður. Þær voru ekki beittar í kvöld, því miður, og þá gerist lítið.

Galli liðsins er að það er of stíft, ekki nógu skapandi, og þegar föstu leikatriðin gefa ekki af sér þá er ekkert annað í boði. Núna er útlit fyrir að liðið ljúki leik á EM án þess að skora mark því ég lái ekki leikmönnum að mæta daprir í lokaleikinn við Noreg. Draumurinn er farinn. Allt er ömurlegt í augnablikinu.

Það mun taka sinn tíma að láta tárin þorna fyrir fullt og allt. Þau falla ekki bara í grasið í Bern en á endanum finnst vonandi neistinn á ný sem kom liðinu á EM með svo miklum glæsibrag og gæti komið því á HM í Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×