Fótbolti

Glódís barðist við tárin: „Eftir­sjá og það er erfitt“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Glódís Perla hefur átt erfiða undanfarna daga og segir erfitt að kyngja niðurstöðu kvöldsins. Mikil eftirsjá sitji eftir.
Glódís Perla hefur átt erfiða undanfarna daga og segir erfitt að kyngja niðurstöðu kvöldsins. Mikil eftirsjá sitji eftir. Vísir/Anton

„Ég er gríðarlega svekkt og sár. Það er eftirsjá. Það er ótrúlega leiðinlegt að standa hérna eftir tvo leiki og eiga ekki séns á markmiðinu okkar lengur,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, eftir tap liðsins fyrir Sviss á EM kvenna í fótbotlta í kvöld. Tapið þýðir að Ísland er úr leik.

Glódís kallaði íslenska liðið saman í hring eftir leik og hélt ræðu fyrir hópinn. Aðspurð um hvað hún hafi sagt til að stappa stálinu í íslenska liðið segir hún:

„Ég sagði bara að við eigum einn leik eftir. Við spilum þann leik upp á stoltið og fyrir fólkið sem hefur ferðast hingað til að styðja okkur. Við spilum þann leik fyrir Ísland því við ætlum ekki af þessum móti með vonda tilfinningu. Við ætlum að vinna Noreg, við getum ekki breytt stöðunni núna en getum breytt tilfinningunni,“ segir Glódís í samtali við Aron Guðmundsson eftir leik.

Glódís hefur ekki átt sjö dagana sæla. Hún kom með magapest til Sviss, var fárveik dagana fyrir fyrsta leik og þurfti að víkja eftir 45 mínútur gegn Finnum. Hún segir síðustu daga hafa tekið á og mikil eftirsjá og óþægilegar vangaveltur sitja eftir.

„Þetta er búið að vera erfitt. Akkúrat núna er gríðarlega erfitt að líta til baka og hugsa „Af hverju þurfti þetta að gerast í þessum leik? Og af hverju þurfti þetta að gerast á þessu augnabliki?“ Hefði mögulega eitthvað verið öðruvísi ef þetta hefði ekki gerst. Það er eftirsjá og það er erfitt,“ segir Glódís Perla.

Aðspurð um stuðninginn frá íslensku þjóðinni kveðst Glódís þakklát. Biturð bragð í munni sitji hins vegar eftir í kjölfar vonbrigða kvöldsins.

„Það er magnað hvernig við erum sem þjóð. Það er ekkert sem gerir okkur stoltari en að spila fyrir Ísland með þetta á bakinu, þannan stuðning. Þetta er besta tilfinning í heimi, oft á tíðum, akkúrat núna er þetta versta tilfinning í heimi,“ segir Glódís.

Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í spilaranum.


Tengdar fréttir

„Margt sem við hefðum getað gert betur“

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir 2-0 tap gegn Sviss í kvöld þegar hún ræddi við Aron Guðmundsson, blaðamann Vísis, skömmu eftir leik.

Einkunnir Íslands: Fátt að frétta

Leikmenn íslenska kvennalandsliðsins voru misgóðir í slæmu 2-0 tapi fyrir Sviss í öðrum leik liðsins á EM kvenna í fótbolta. Ísland er úr leik á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×