Fótbolti

Hafa skyldum að gegna gagn­vart lands­liðinu og þjóðinni

Aron Guðmundsson skrifar
Súrt tap gegn Sviss á dögunum gerði út um möguleika Íslands á EM
Súrt tap gegn Sviss á dögunum gerði út um möguleika Íslands á EM Vísir/Anton

Lands­liðsþjálfari ís­lenska kvenna­lands­liðsins í fót­bolta segir leik­menn og þjálfara hafa skyldum að gegna í síðasta leiknum á EM gegn Noregi. Skyldum sem tengjast lands­liðinu og stuðnings­mönnum þess.

Mögu­leikar Ís­lands á sæti í átta liða úr­slitum EM fuku út í veður og vind með tapi gegn Sviss á Wankdorf leik­vanginum á sunnu­daginn síðastliðinn.

Ís­lenska lands­liðið hefur tapað báðum leikjum sínum til þessa á mótinu og ekki tekist að koma boltanum í netið.

Heyra mátti það í viðtölum við leik­menn strax eftir leik að þær vilja vinna leikinn gegn Noregi fyrir stuðnings­menn liðsins. Þar var strax búið að slá ákveðinn tón sem áhuga­vert verður að sjá að mæti með þeim til leiks á fimmtu­daginn í leiknum sjálfum.

Lands­liðsþjálfarinn Þor­steinn Halldórs­son telur hið minnsta að það verði ekki erfitt að móti­vera leik­menn fyrir leik.

„Ég á ekki von á því. Auðvitað er dagurinn eftir leik þungur. Þungt yfir öllu núna en við gerum okkur grein fyrir því að við höfum skyldum að gegna. Það er það sem að við horfum í. Við höfum skyldum að gegna gagn­vart öllum sem eru mætt hingað til þess að horfa á okkur og hafa verið hérna allan tímann með okkur. Við höfum líka bara skyldum að gegna sem lands­lið. Við móti­verum okkur vel fyrir leikinn á fimmtu­daginn og verðum klár. “

Finna má alla umfjöllun íþróttadeildar Vísis og Sýnar um EM í fótbolta í gegnum hlekkinn hér fyrir neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×