Fótbolti

Messi í stuði í nótt og nældi sér í enn eitt metið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar fyrsta marki sínu og Inter Miami í sigrinum á New England Revolution í nótt.
Lionel Messi fagnar fyrsta marki sínu og Inter Miami í sigrinum á New England Revolution í nótt. Getty/Michael Owens

Lionel Messi bætti enn einu metinu við metorðalistann sinn í nótt þegar hann fór fyrir Inter Miami í sigri í bandarísku MLS deildinni.

Messi skoraði þá bæði mörkin í 2-1 sigri á New England Revolution á Gillette Stadium.

Þetta var fjórði leikurinn í röð þar sem Messi skoraði tvö mörk eða fleiri og Inter hefur unnið þá alla. Þessu hefur enginn leikmaður náð að gera áður í bandarísku deildinni.

Hinn 38 ára gamli Messi nýtti sér mistök varnarinnar í fyrra markinu en skoraði það síðara með frábærri afgreiðslu eftir sendingu frá Sergio Busquets.

Messi og félagar hafa unnið báða leiki sína síðan liðið datt út á móti Paris Saint Germain í heimsmeistarakeppni félagsliða.

Sá skellur lítur þó aðeins öðruvísi út eftir að PSG rassskellti líka Real Madrid í gærkvöldi.

Messi er nú kominn með fjórtán mörk og átta stoðsendingar í fimmtán deildarleikjum en Inter Miami situr í fimmta sæti deildarinar.

Í þessum fjórum síðustu deildarleikjum Inter Miami þá er Messi með átta mörk og fimm stoðsendingar. Liðið hefur skorað fimmtán mörk í þeim og hefur Messi því átt beinan þátt í 87 prósent þeirra, þrettán af fimmtán.

Mörkin í nótt má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×