Upp­gjörið: ÍBV - Stjarnan | Nauð­syn­legur sigur fyrir Eyja­menn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fram - ÍBV Besta deild karla Sumar 2025
Fram - ÍBV Besta deild karla Sumar 2025

ÍBV fékk Stjörnuna í heimsókn í dag í Bestu deild karla. Þeir unnu leikinn 1-0, bráðnauðsynlegur sigur fyrir Eyjamenn, sem koma sér þrem stigum frá fallsæti.

Fyrri hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað þar sem hvassviðri í Vestmannaeyjum bauð ekki upp á besta fótboltann. Eyjamenn ógnuðu aðeins úr skyndisóknum á meðan Stjarnan hélt vel í boltann. Það komu hins vegar engin mörk, og engin stór færi.

Í seinni hálfleik komu Eyjamenn sterkir til leiks. Þeir áttu nokkur fín færi, áður en að þeir komust yfir á 71. mínútu. Oliver Heiðarsson, sem var að spila sinn fyrsta leik eftir að koma til baka úr meiðslum, kom með fyrirgjöfina frá vinstri. Boltinn sveif yfir pakkann og endaði hjá Sverri Pál sem skallaði boltann aftur inn í þvöguna, og þar komst Alex Freyr fyrstur í boltann og potaði honum inn.

Stjarnan þjarmaði að Eyjamönnum síðustu 20 mínúturnar en tókst ekki að koma boltanum í netið. Það var í raun Eyjamenn sem fengu hættulegasta færið eftir þetta, þegar Sverrir Páll Hjaltested var kominn einn gegn markmanni en hann tók slæma snertingu og Árni Snær náði til boltans.

Atvik leiksins

Lítið um atvik í þessum leik, þannig eina mark leiksins verður að vera fyrir valinu. Alex Freyr Hilmarsson potaði boltanum inn af stuttu færi.

Stjörnur og skúrkar

Oliver Heiðarsson spilaði sínar fyrstu mínútur síðan hann meiddist og hann kom vel inn í leikinn. Alex Freyr átti einnig góðan leik, þar sem hann skoraði markið og var almennt góður á miðjunni.

Skúrkurinn er sóknarleikur Stjörnunnar. Þeir náðu lítið sem ekkert að skapa sér, og þegar þeir komu eitthvað nálægt markinu voru skotin slök.

Dómararnir

Gunnar Oddur og hans teymi áttu fínan leik í dag. Engir risa dómar sem þeir þurftu að taka, en skiluðu sínu verki vel.

Stemning og umgjörð

Gervigrasið hjá Eyjamönnum leit betur út en síðast gegn Víkingum. Hins vegar var það vindurinn sem var vesenið í dag. Það var ekkert svakalega fjölmennt í stúkunni og leikurinn sjálfur var ekki mikið að bjóða upp á frábæra stemningu í stúkunni.

Jökull: Þetta var þurr fótboltaleikur

Jökull Elísabetarson var svekktur með úrslitin.vísir/Diego

Jökull Elísabetarson þjálfari Stjörnunnar var svekktur með tapið í Eyjum.

„Auðvitað svekkjandi að tapa, en þetta var bara þurr fótboltaleikur og þeir gerðu vel. Vörðust mjög vel, fengu fá færi á sig, og voru ágætir á breikinu. Þetta mark var bara vel gert hjá þeim,“ sagði

Það var mjög hvasst á meðan leiknum stóð yfir og Stjarnan spilaði á móti vind í seinni hálfleik.

„Mér fannst vera hraði í þessu í lokin þegar við vorum búnir að skipta mönnum inn, frekar hægir svona framan af. Þannig fljótt á litið eftir leik, þá fannst mér það ekki vera það sem að var að. Þeir voru þéttir og gerðu það vel að kreista út sigur,“ sagði Jökull.

Láki: Rosalegur vilji í okkar liði

Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV var ánægður með úrslit kvöldsins.Vísir/Diego

Þorlákur Már Árnason þjálfari ÍBV var ánægður með viljann í sínu liði eftir sigurinn gegn Stjörnunni.

„Mér fannst þetta vera stál í stál. Það var rosalegur vilji í okkar liði, við kannski sigldum þessu einhvern veginn heim. Stjarnan spilaði mjög vel fannst mér í seinni hálfleik á móti vindinum. Því þeir eru það vel spilandi, mér fannst það henta þeim betur heldur en að spila með. Á endanum held ég bara sanngjarnt, þannig séð. Mér fannst einhver svona smá meiri vilji í okkur til að klára þetta,“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira