Fótbolti

Cecilía Rán fékk á sig fastasta skot EM til þessa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Engin á Evrópumótinu til þessa hefur fengið á sig fastara skot en Cecilía Rán Rúnarsdóttir. Markið skoraði Norðmaðurinn Signe Gaupset hjá henni.
Engin á Evrópumótinu til þessa hefur fengið á sig fastara skot en Cecilía Rán Rúnarsdóttir. Markið skoraði Norðmaðurinn Signe Gaupset hjá henni. Getty/Alex Caparros

Eitt marka norska landsliðsins á móti Íslandi skar sig úr meðal allra markanna sem voru skoruð í riðlakeppni Evrópumótsins í Sviss.

Markið skoraði Signe Gaupset og kom norska liðinu þarna 2-1 yfir í þessum 4-3 sigri á íslensku stelpunum.

Gaupset átti þarna bæði fastasta skotið sem varð að marki á Evrópumótinu og enginn skoraði heldur af lengra færi í riðlakeppninni.

UEFA tilkynnti þetta á heimasíðu sinni en skotharkan og lengd þeirra frá marki eru mæld nákvæmlega með sérstökum nemum í boltanum.

Skot Gaupset mældist á 105,5 kílómetra hraða og Cecilía Rán Rúnarsdóttir kom engum vörnum við í marki Ísland. Skot Gaupset kom líka af 24,3 metra færi.

Glódís Perla Viggósdóttir átti eitt af sex mörkum riðlakeppninnar sem voru skoruð með skoti sem fóru á meira en hundrað kílómetra hraða.

Mark Glódísar Perlu úr vítaspyrnu á móti Noregi mældist á 100,3 kílómetra hraða.

Þær sem náðu fastari skotum voru auk Gaupset þær Janni Thomsen (Danmörku), Lauren James (Englandi), Georgia Stanway (Englandi) og Filippa Angeldahl (Svíþjóð).

Markið hennar Gaupset má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×