Erlent

Öku­maðurinn skotinn af vitnum á vett­vangi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Skemmtistaðurinn Vermont Hollywood stóð fyrir reggí- og hip hop viðburði nóttina sem árásin var gerð. 
Skemmtistaðurinn Vermont Hollywood stóð fyrir reggí- og hip hop viðburði nóttina sem árásin var gerð.  AP

Þrjátíu eru særðir, þar af sjö lífshættulega, eftir að maður ók bíl sínum í hóp fólks sem beið þess að komast inn á skemmtistað í LA í gærnótt. Lögregla segir manninum hafa verið sparkað út af staðnum fyrir að vera til vandræða skömmu áður en hann ók á hópinn. 

Ökumaðurinn, hinn 29 ára gamli Fernando Ramirez, hefur samkvæmt umfjöllun Los Angeles Times verið ákærður fyrir vopnaða líkamsárás.

Samkvæmt upplýsingum sem miðillinn hefur frá lögreglunni í Los Angeles er atburðarásinni lýst þannig að manninum hafi verið vísað út af skemmtistaðnum Vermont Hollywood á öðrum tímanum aðfaranótt laugardags fyrir að sýna óvirðingu.

Skömmu síðar hafi hann ekið bílnum sínum á hóp fólks sem beið í röð eftir að komast inn á staðinn. Í framhaldinu hafi vitni á staðnum ráðist að Ramirez og eitt vitnið tekið upp á því að skjóta hann. 

Átján konur særðust í árásinni og tólf karlar. Stór hluti hinna særðu var færður undir læknishendur. Ástand sjö var talið lífshættulegt. 

Ramirez var jafnframt fluttur á sjúkrahús þar sem hann var sendur í bráðaaðgerð vegna skotsára sinna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×