Fótbolti

Sjáðu rauða spjaldið og markið sem skaut Vals­mönnum á toppinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Patrick Pedersen heldur áfram að raða inn mörkum fyrir Val.
Patrick Pedersen heldur áfram að raða inn mörkum fyrir Val. Vísir/Anton Brink

Valur vann mikilvægan 1-2 sigur er liðið heimsótti Víking í sannkölluðum toppslag í Bestu-deild karla í knattspyrnu í gær.

Fyrir leikinn sátu Víkingar á toppi deildarinnar og Valsmenn í þriðja sæti. Aðeins þrjú stig skildu liðin að og því ljóst að toppsætið væri undir í leik gærkvöldsins.

Óhætt er að segja að leikurinn hafi verið fjörugur og að nokkur hiti hafi verið í mönnum, enda mikið undir. 

Albin Skoglund kom gestunum yfir með marki á 36. mínútu og aðeins fjórum mínútum síðar urðu Víkingar fyrir öðru áfalli þegar Ingvar Jónsson, markvörður liðsins, fékk að líta beint rautt spjald eftir glæfralegt úthlaup.

Þrátt fyrir liðsmuninn tókst Víkingum að jafna metin. Erlingur Agnarsson var þá á ferðinni á 65. mínútu og útlit fyrir að heimamenn myndu fá eitthvað út úr þessum leik þrátt fyrir að vera manni færri.

Danski markahrókurinn Patrick Pedersen gerði hins vegar það sem hann gerir best stuttu fyrir leikslok og tryggði Valsmönnum dýrmætan 1-2 sigur. Með sigrinum stukku Valsmenn á topp Bestu-deildarinnar, en Valur Víkingur og Breiðablik eru öll jöfn að stigum.

Allt það helsta úr leik gærdagsins má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Mörkin og rauða spjaldið úr leik Víkings og Vals



Fleiri fréttir

Sjá meira


×