Innlent

Loft­gæði versnandi á gos­stöðvunum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Björn Steinbekk

Loftgæði virðast vera versna á gosstöðvunum og mælst er til þess að fólk sé ekki á göngu um svæðið eins og staðan er.

Frá þessu er greint í stuttri tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Þar segir að samkvæmt mælum sem staðsettir eru við gosstöðvarnar sé útlit fyrir að loftgæði fari versnandi við stöðvarnar.

Viðbragðsaðilar séu á leið á vettvang til að gera frekari mælingar á gasi.

„Við minnum á að þarna er virkt eldgos í gangi og aðstæður geta breyst fljótt hvað varðar veður og mengun. En samkvæmt þessum nýjustu upplýsingum þá ætti fólk alls ekki að vera á göngu um svæðið eins og staðan er núna.“

Lögreglan hvetur íbúa til að:

  • Takmarka mikla útiveru
  • Forðast áreynslu utandyra
  • Huga sérstaklega að börnum og viðkvæmum

Á vef Veðurstofunnar segir að styrkur brennisteinsdíoxíðar frá eldgosinu mælist nú óholl öllum við gossvæðið. Forðast skuli áreynslu utandyra og börn skuli ekki vera úti á þessu svæði.

Hins vegar hafi dregið úr mengun brennisteinsdíoxíðar á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi frá því sem var í morgun.

Hægt er að fylgjast með loftgæðamælingum inni á loftgaedi.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×