Sport

Landsliðsfólk fagnaði sigri í Kerlingar­fjöllum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þorsteinn Roy kom fyrstur í mark í 22 kílómetra hlaupi í Kerlingafjöllum í dag.
Þorsteinn Roy kom fyrstur í mark í 22 kílómetra hlaupi í Kerlingafjöllum í dag. Sýn

Landsliðsfólk Íslands í utanvegahlaupum er á fullu að undirbúa heimsmeistaramót sem fer fram á Spáni í haust. 

Hlaupararnir keppa nánast hverja helgi og nokkur þeirra tóku einmitt þátt í utanvegahlaupi í Kerlingarfjöllum sem fór fram í dag.

Þetta var í annað sinn sem utanvegahlaup er haldið í Kerlingarfjöllum. Íþróttin er orðin ein sú vinsælasta á Íslandi og uppselt var nánast um leið og skráning hófst.

Tæplega fjögur hundruð hlauparar lögðu leið sína um sundurskorin háhitasvæði, hyldjúp gljúfur og ægilega fjallstinda umhverfis Kerlingu - drangann sem fjöllin draga nafn sitt af.

Meðal keppenda var stór hluti af landsliði Íslands í utanvegahlaupum.

Karlalandsliðið í lengri vegalengdum er skipað þeim Þorsteini Roy og Sigurjóni Erni Sturlusyni, þeir kepptu reyndar í styttri vegalengdinni í dag, 22 kílómetrum, og þar var Þorsteinn fyrstur í mark, rúmum fimm mínútum á undan Sigurjóni.

Þorsteinn kom í mark á 1:53:28, en Sigurjón á 1:58:55. Stefán Pálsson varð þriðji á 2:07:19.

Í lengri vegalengdinni, þar sem hlaupnir voru 60 kílómetrar, var það svo landsliðskonan, hlaupadrottningin mikla Andrea Kolbeinsdóttir, sem kom fyrst allra í mark og fagnaði sigri í Kerlingarfjöllum.

Andrea hljóp kílómetrana 60 á 5:56:21 og var tæpri klukkustund á undan Gunnari Lárusi Karlssyni sem varð annar á 6:52:40. Helgi Halldórsson varð svo þriðji á 7:02:41.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×