Erlent

Araba­ríkin sam­einast um af­vopnun Hamas og for­dæmingu á á­rásunum 7. októ­ber

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það voru Frakkland og Sádi Arabía sem fóru fyrir ráðstefnunni um tveggja ríkja lausnina.
Það voru Frakkland og Sádi Arabía sem fóru fyrir ráðstefnunni um tveggja ríkja lausnina. Getty/Anadolu/Seluk Acar

Arabaríkin hafa í fyrsta sinn sameinast um ákall til Hamas um að leggja niður vopn, láta alfarið af völdum á Gasa og sleppa þeim gíslum sem enn eru í haldi samtakanna.

Vonir standa til að þetta myndi greiða fyrir stofnun sjálfstæðrar Palestínu.

Yfirlýsingin var lögð fram á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um hina svokölluðu tveggja ríkja lausn en hún er undirrituð af fulltrúum allra þeirra tuttugu og tveggja ríkja sem tilheyra Arababandalaginu, auk allra aðildarríkja Evrópusambandsins og sautján ríkja til viðbótar.

Ríkin fordæma einnig í yfirlýsingunni árásari Hamas á Ísrael þann 7. október 2023.

Hamas-samtökin eru hvött til þess að afvopnast í samvinnu við Heimastjórn Palestínumanna og með stuðningi alþjóðasamfélagsins. Þá er kallað eftir því að alþjóðleg stöðugleikanefnd myndi koma að málum, í boði heimstjórnarinnar og undir fána Sameinuðu þjóðanna.

Stjórnvöld í fjölda Arabaríkja hafa einhvers konar tengsl við Hamas og hafa goldið varhug við því að fordæma samtökin og koma á sambandi við Ísrael. 

Óvíst er um viðbrögð leiðtoga Hamas, sem hafa hingað til neitað að leggja niður vopn og yfirráð yfir Gasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×