Erlent

Beina­ber gísl látinn grafa eigin gröf á Gasa

Agnar Már Másson skrifar
Hamas birti í dag tvö myndskeið af Evyatar David, ísraelskum gísl.
Hamas birti í dag tvö myndskeið af Evyatar David, ísraelskum gísl. Skjáskot

„Þetta er gröfin þar sem ég held að ég verði grafinn. Tíminn er á þrotum,“ segir Evyatar David, ísraelskur gísl í haldi Hamas, í myndskeiði sem samtökin birtu þar sem hann stendur magur af vannæringu og grefur holu í neðanjarðargöngum á Gasa.

Hryðjuverkasamtökin Hamas hafa birt tvö myndskeið af David eftir að Steve Witkoff, sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna, hitti fjölskyldur gíslanna í þessari viku.

Hinn 24 ára gamli Ísraelsmaður er greinilega beinaber í myndbandinu þar sem sést í axlarblöðin standa út úr bakinu á honum. Þar segist hann ekki hafa borðað í þrjá daga. 

Í myndböndunum virðist hann vera að grafa sína eigin gröf.

David vann á veitingastað samkvæmt myndbandi sem Labour Friends of Israel birti, áður en honum var rænt á Nova-tónlistarhátíðinni hinn 7. október 2023, þegar Hamas-liðar drápu um tólf hundruð Ísraelsmenn og tóku um 250 manns í gíslingu.

Síðan þá hefur David verið í haldi á Gasaströndinni, þar sem Ísraelsmenn hafa banað ríflega sextíu þúsund manns og hungursneyð vofir yfir. Myndböndin benda til þess að Ísraelsmanninum sé haldið í dimmum jarðgöngum undir Gasa og lifi af á lítilli sem engri fæðu, í raun aðeins skammti af baunum og linsubaunum.

Afar takmarkað magn hjálpargagna hafa borist síðustu vikur eftir að Ísraelsmenn lokuðu fyrir fluttning þeirra á svæðið.

„Það er ekki nægur matur. Ég fæ varla drykkjarvatn,“ segir hann samkvæmt enskum texta undir myndskeiðinu.

Myndbandið sýnir hann tala um það sem hann borðaði í júlí, sem hefur verið skráð á heimagert dagatal sem hangir á hlið neðanjarðarganganna þar sem hann virðist látinn dvelja.

David segir enn fremur, samkvæmt textasetningunni: „Þeir gefa mér það sem þeir geta fengið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×