Erlent

Grunaður um að myrða heila fjöl­skyldu en skilja ungabarnið eftir á lífi

Agnar Már Másson skrifar
Sá grunaði, Austin Robert Drummond.
Sá grunaði, Austin Robert Drummond. Tennessee Bureau of Investigation

Lögreglan í Bandaríkjunum leitar að vopnuðum manni sem er grunaður um að hafa myrt nánast heila fjölskyldu að undanskildu sjö mánaða ungabarni sem hann skildi eftir á lífi. Fimmtán ára barn er meðal fórnarlambanna.

Bíll hefur fundist í tengslum við leitina á manninum sem er grunaður um að myrða foreldra, ömmu og frænda ungbarns sem fannst yfirgefið við hús í Tennessee-fylki.

Maðurinn nefnist Austin Robert Drummond, 28 ára, og er grunaður um að hafa myrt fjóra í Tennessee-ríki Bandaríkjanna; James M. Wilson, 21 árs, Adriönnu Williams, 20 ára, Cortney Rose, 38 ára, og Braydon Williams, 15 ára. Wilson og Adrianna Williams voru foreldrar ungbarnsins sem fannst á lífi í bílstól í garði húss í gær.

Lögreglumenn segja að Drummond sé enn á flótta og sé talinn vopnaður og hættulegur.

Cortney Rose var móðir Adriönnu og Braydons Williams, að sögn Danny Goodman saksóknara en Sky News greinir frá. Engar upplýsingar hafa verið gefnar um hvernig þau voru myrt.

Drummond mun hafa skilið sjö mánaða gamla stúlkuna eftir en látið fólk í nágrenninu vita af barninu og beðið það um að sækja hana. Árásarmaðurinn er að sögn yfirvalda talinn hafa þekkt til eins fórnarlambanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×