Fótbolti

Mourinho grét á blaða­manna­fundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho átti erfitt með sig í gær á blaðamannafundi fyrir Evrópuleik Fenerbahce á móti Feyenoord en leikurinn fer fram í kvöld.
Jose Mourinho átti erfitt með sig í gær á blaðamannafundi fyrir Evrópuleik Fenerbahce á móti Feyenoord en leikurinn fer fram í kvöld. Getty/Yannick Verhoeven

Portúgalski þjálfarinn José Mourinho gat ekki haldið aftur af tárunum á blaðamannafundi í Tyrklandi í gær.

Mourinho er þjálfari Fenerbahce og er að stýra liðinu á móti hollenska Feyenoord í kvöld í forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld. Þetta er fyrri leikur liðanna og fer fram í Hollandi.

Talið á fundinum í gær barst aftur á móti að landa hans Jorge Costa.

Fréttir bárust af því fyrr um daginn að Portúgalinn Jorge Costa hefði látist aðeins 53 ára gamall.

Costa lék fimmtíu landsleiki fyrir Portúgal frá 1992 til 2002 og spilaði fyrir Mourinho hjá Porto þar sem Costa lék í fimmtán ár. Costa var fyrirliði Porto liðsins sem vann Meistaradeildina undir stjórn Mourinho árið 2004.

„Andlát Jorge Costa þýðir að hluti af sögunni er farin frá okkur. Ef hann væri hérna núna þá myndi hann segja við mig: Haltu þennan blaðamannafund og kláraðu leikinn á morgun. Ég ætla því að gera það og svo græt ég eftir það,“ sagði Mourinho en tókst þó ekki að halda aftur tárunum.

Costa var á æfingu með Porto þegar hann fékk hjartaáfall. Hann var fluttur á sjúkrahús en stuttu eftir komuna þangað var hann úrskurðaður látinn.

Costa hafði verið yfirmaður knattspyrnumála hjá Porto frá því í júní í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×