Erlent

Hvarf fyrir tæpum þrjá­tíu árum og fannst í hopandi jökli

Samúel Karl Ólason skrifar
Jöklar í Pakistan eru sagðir hafa hopað mikið á undanförnum árum vegna lítillar úrkomu. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Jöklar í Pakistan eru sagðir hafa hopað mikið á undanförnum árum vegna lítillar úrkomu. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Nurettin Boydak

Lík manns sem hvarf fyrir rúmum 28 árum fannst nýverið í afskekktum dal í austurhluta Pakistan. Smali gekk fram á líkið sem kom undan hopandi jökli og þykja líkamsleifarnar merkilega vel varðveittar.

Á líkinu fundust skírteini með nafninu Naseeruddin en samkvæmt frétt BBC segir lögreglan í Pakistan að hann hafi horfið í júní 1997. Þá féll hann ofan í sprungu á jökli í óveðri.

Í samtali við BBC segir smalinn að fundurinn hafi verið ótrúlegur.

„Líkið var óskaddað. Fötin voru ekki einu sinni rifin.“

Snjókoma hefur mælst einstaklega lítil á þessu svæði undanfarin ár og þykja jöklar bráðna mjög hratt þar.

Lögreglan segir Naseeruddin hafa verið kvæntan og átt tvö börn. Hann mun hafa verið á ferðinni með bróður sínum en báðir voru á hestbaki. Í samtali við BBC segir bróðirinn að Naseeruddin hafi farið inn í helli en ekki komið aftur þaðan.

Bróðirinn leitaði en fann Naeeruddinn ekki og segist þá hafa sóst eftir hjálp. Þrátt fyrir umfangsmikla leit hafi Naseeruddinn ekki fundist.

Bræðurnir eru sagðir hafa verið í felum á þessum tíma vegna fjölskyldudeilna en skömmu eftir að Naseeruddinn hvarf mun þriðji bróðirinn hafa verið myrtur og fjölskylda þeirra þurfti að flýja.

Miðillinn Pakistan Today segir líkið hafa fundist þann 1. ágúst. Lík Naseeruddinn er sagt hafa varðveist sérstaklega vel vegna kuldans, lágs rakastigs og það hafi í raun gengi líksmurningu af náttúrunnar hendi.

Í samtali við BBC segir að þegar fólk falli ofan í jökla frjósi þau hratt og það komi í veg fyrir rotnun. Þá leiði súrefni og rakaleysi til þess að líkin varðveitist sérstaklega vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×