Skoðun

Takk starfs­fólk og for­ysta ÁTVR

Siv Friðleifsdóttir skrifar

Starfsfólk og forysta ÁTVR á þakkir skildar fyrir framúrskarandi lipra og góða þjónustu. Einnig fyrir að standa heil með forsendum þess að ríkið reki ÁTVR. Í lögum kemur fram að markmið rekstrar ÁTVR er að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu, að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum. Þessum lögfestu forsendum hafa forstjórinn og aðstoðarforstjórinn, Ívar Arndal og Sigrún Ósk Sigurðardóttir, haldið á lofti um árabil í starfseminni allri og þegar fjölmiðlar hafa leitað eftir viðbrögðum þeirra við hin ýmsu tækifæri. Takk bæði fyrir að hafa verið skýr á þessu.

Þjónustan til fyrirmyndar

Ekki er ég bindindismaður og versla því stundum í ÁTVR. Vöruúrval er gott og alltaf er þjónusta starfsmanna til fyrirmyndar. Takk starfsmenn fyrir framúrskarandi góða þjónustu. Fyrst áfengi er ekki bönnuð vara og einhver þarf að sjá um söluna, er gott að það er gert undir hatti ÁTVR því þið seljið á þann hátt að lýðheilsa er vernduð sem mest og samfélagsleg ábyrgð höfð að leiðarljósi. Þótt sumir segi að það sé þægilegt að kaupa áfengi með steikinni í matvöruverslun tel ég ekki eftir mér að ganga nokkur aukaskref til að kaupa hjá ÁTVR því ég veit að rannsóknir og gagnreynd þekking sýnir að einkasala ríkis á áfengi, eins og viðhöfð er á öllum Norðurlöndum nema Danmörku, er til þess fallin að vernda velferð ungmenna og lýðheilsu allra. Að mínu mati er eitt mikilvægasta markmið samfélags okkar að vernda velferð barna og ungmenna og bæta forvarnir og lýðheilsu fyrir alla.

Velta sér upp úr peningum

Afleitt er að markaðsvæða áfengissöluna með tilheyrandi auglýsingamennsku svo netsalar geti selt sem mest og makað krókinn með áfengissölu upp á milljarða króna. Ekki bera netsalar samfélagsskaðann af neyslunni heldur samfélagið. Í fjölmiðlafrétt í fyrra kom fram “Eigandi netverslunar með áfengi býst við að velta nærri tveimur milljörðum króna í ár en viðskiptin hafa aldrei verið jafn blómleg. Hann hefur sætt lögreglurannsókn en málið er orðið að pólitísku bitbeini innan ríkisstjórnarinnar.”

Jú, þessi umdeilda sala er til rannsóknar og er breiðfylking forvarnarsamtaka sammála kæru ÁTVR um að hún sé ólögleg. Enn er beðið niðurstöðu lögreglu í málinu þótt sala þessi hafi verið kærð til lögreglu þann 16. júní 2020 fyrir rúmlega fimm árum. Slíkur dráttur á niðurstöðu er undrunarefni. Ég hef ekki áhuga á að borga hærri skaðaskatta til að dekka þann samfélaglega kostnað sem fylgir því að netsalarnir velti sér upp úr peningum fengnum með áfengissölu þvert á lýðheilsustefnu stjórnvalda. Ekki trúi ég, fyrr en tek á, að stjórnvöld sem tala um hagræðingu ætli að opna fyrir slíkan útgjaldakrana. Krana upp á milljarða króna árlega.

Stóraukinn samfélagskostnaður

Hver væru áhrif af því að leggja ÁTVR niður og heimila sölu áfengis í matvöruverslunum? Jú, allra veigamesta afleiðingin er stóraukinn samfélagskostnaður, sem fyrr segir. Aukin sjúkdómabyrði, meiri örorka, fleiri slys, meiri þungi í barnavernd, aukin verkefni lögreglu og svo framvegis. Velferð barna og lýðheilsa allra er undir. Þá færu umfangsmiklar áfengisauglýsingar í gang þar sem áfengi og tilboðspakkar væru auglýstir. Áfengi yrði otað að fólki, ungum sem öldnum. Það væri afleitt því áfengi er ekki eins og hver önnur verslunarvara eins og flestir vita. Auglýsingum yrði beint að fullorðnum og ungmennum. Slíkt sjáum við nú þegar og stjórnvöld bregðast ekki við. Önnur áhrif, sem skipta líka máli fyrir hóp fólks, eru að vöruúrval myndi minnka mjög mikið. Þetta vita allir sem hafa keypt sér áfengi í matvöruverslunum á Spáni, í Danmörku og víðar. Örfáar tegundir yrðu seldar, einungis þær sem tryggðu matvörubúðinni mestan gróða. Þá kæmi talsvert högg á landsbyggðina með niðurlagningu starfa ÁTVR. Þótt ég líti ekki á starfsemi ÁTVR sem byggðamál heldur lýðheilsu- og velferðarmál verður ekki framhjá því litið að fjölmörg störf tapast um landið ef þeim verslunum yrði lokað.

Lögregla ávörpuð í WHO skýrslu

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gaf út skýrslu nú í febrúar 2025 Norrænu áfengiseinkasölurnar: mikilvægi hlutverks þeirra í heildstæðri áfengisstefnu og bættri lýðheilsu. Stofnunin hvetur norræn stjórnvöld til að forgangsraða í þágu heilsu og standa gegn ásókn í átt að einkavæðingu í áfengissölu. Slík ásókn getur brotið niður alþjóðlega viðurkennt fyrirkomulag, sem dregur úr áfengistengdum skaða og verndar lýðheilsu. Í skýrslunni er lögreglan ávörpuð, en þar segir “In spite of this, online sales of alcohol have increased significantly in recent years. The online sale of alcohol has been reported to the police, who have yet to decide whether charges will be filed against online retailers (111).” Stofnunin þekkir því það ófremdarástand sem hér ríkir vegna aukinnar netsölu áfengis til neytenda beint af lager innanlands og veit að lögreglan hefur haft kæru til rannsóknar í fimm ár.

Málshraði lögreglu á hraða snigils

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sat fyrir svörum Morgunblaðsins þann 7. ágúst sl. og hélt á lofti að málshraði í málum er snerta ungmenni hefði verið aukinn um 500%. Áhersla væri á svokallaða snemmtæka íhlutun og að ný fjárveiting Alþingis hefði orðið til þess að unnt hefði verið að fjölga stöðugildum rannsóknarlögreglumanna og eins þeirra sem fara með ákæruvald í málum sem lögregla annast saksókn í. Með allri virðingu þá hlýtur maður að spyrja, af hverju hefur þá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu ekki klárað kæruna á hendur netsölum áfengis í ríflega fimm ár? Málið er á hraða snigils. Um er að ræða mál sem skiptir ungmenni og samfélagið allt mjög miklu máli. Meðan lögreglan heldur málinu hjá sér hefur netsalan frítt spil og grefur um sig. Staða þessi er til vansa. Samkvæmt lögum á lögreglan að hraða málsmeðferð í kærumáli eins og unnt er. Nú verður lögreglan að klára verkið. Vonandi sigrar lýðheilsan og vernd ungmenna að lokum þannig að áfram verði unnt að reka áfengissölu á Íslandi á samfélagslegum forsendum.

Höfundur er fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×