Erlent

Einn látinn og tíu slasaðir eftir stóra sprengingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Stálverksmiðjan er nokkuð stór en ekki liggur fyrir hvað olli sprengingunni í dag.
Stálverksmiðjan er nokkuð stór en ekki liggur fyrir hvað olli sprengingunni í dag. AP/Gene J. Puskar

Að minnsta kosti einn er látinn, tíu eru slasaðir og eins er saknað eftir stóra sprengingu í stálverksmiðju í Bandaríkjunum í dag. Sprengingin náðist á myndband og virðist hafa verið mjög umfangsmikil.

Nánar tiltekið varð sprengingin í verksmiðju í Clairton í Pennsylvaníu. Enn er verið að leita í brakinu, samkvæmt AP fréttaveitunni, en einum var bjargað þaðan fyrr í kvöld.

Ekki liggur fyrir hvað olli sprengingunni en henni fylgdi þó nokkrar minni sprengingar og kviknaði einnig eldur í verksmiðjunni. Höggbylgjan vegna hennar mun hafa fundist um stórt svæði.

AP hefur eftir konu sem býr í meira en kílómetra fjarlægð frá verksmiðjunni að húsið hennar hafi nötrað vegna höggbylgjunnar.

Æðsti yfirmaður verksmiðjunnar, Scott Buckiso, sagði á blaðamannafundi í kvöld að starfsmenn hefðu staðið sig einkar vel við erfiðar aðstæður. Þeir hefðu bjargað öðrum slösuðum starfsmönnum, slökkt á gasflæði og tryggt að verksmiðjan væri örugg.

Verksmiðjan er í eigu japanska fyrirtækisins Nippon Steel Corp. en þar hafa áður orðið sprengingar í gegnum árin. Einn dó í sprengingu árið 2009 og margir slösuðust í sprengingu ári seinna. Þá brann starfsmaður til bana árið 2014.

Verksmiðjan er talin sú stærsta sinnar tegundar í Norður-Ameríku og þar starfa um 1.400 manns. Þar er framleitt mikilvægt hráefni við framleiðslu stáls sem á ensku kallast „coke“. Það er framleitt með því að baka kol í ofnum við gífurlegan hita en við það myndast einnig baneitrað gas sem íbúar í Clairton hafa kvartað yfir í gegnum árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×