Erlent

Smyglaði 850 skjald­bökum í sokkum frá Banda­ríkjunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eastern Box skjaldbakan er bandarísk og þykir afar eftirsóknarverð sem gæludýr í Kína.
Eastern Box skjaldbakan er bandarísk og þykir afar eftirsóknarverð sem gæludýr í Kína. Getty

Kínverskur maður, Wei Qiang Lin, hefur játað að hafa flutt um það bil 850 verndaðar skjaldbökur frá Bandaríkjunum og til Hong Kong. 

Skjaldbökunum var pakkað þannig að þær voru settar í sokka og síðan raðað í kassa. Dýrin voru send úr landi í um það bil 200 pakkningum á tímabilinu ágúst 2023 til nóvember 2024, og merkt sem „plastdýr“. 

Samkvæmt BBC var aðallega um að ræða skjaldbökur af ættkvíslinni Terrapene, sem þykja afar eftirsóknarverðar í Kína. Þar eru þær haldnar sem gæludýr og þykja ákveðið stöðutákn.

Skjaldbökurnar sem Lin sendi til Hong Kong eru metnar á um 173 milljónir króna.

Lin var einnig staðinn að því að hafa flutt út nokkrar pakkningar sem innihéldu snáka og önnur skriðdýr. Hann á yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi.

Annar kínverskur maður var dæmdur í 30 mánaða fangelsi í mars síðastliðnum fyrir að smygla yfir 2.000 skjaldbökum. Þær höfðu líka verið settar í sokka en voru merktar sem smákökur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×