Golf

„Hef hugsað um þetta síðan ég var þrettán ára“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dagbjarti hefur dreymt um Íslandsmeistaratitilinn síðan hann var þrettán ára.
Dagbjarti hefur dreymt um Íslandsmeistaratitilinn síðan hann var þrettán ára. GSÍ

Dagbjartur Sigurbrandsson vann langþráðan Íslandsmeistaratitil um síðustu helgi, litla systir hans er ekki lengur með montréttinn á heimilinu og hann fer vongóður inn í úrtökumót haustsins.

Heilmikil spenna var á Íslandsmótinu í golfi um síðustu helgi, Axel Bóasson leiddi frá fyrsta degi, með Dagbjart Sigurbrandsson í öðru sætinu, rétt á eftir. Dagbjartur tók svo fram úr á lokadeginum og stóð uppi sem sigurvegari á Íslandsmótinu í fyrsta sinn á ferlinum.

„Þetta var ekkert smá gaman, að geta klárað þetta á sunnudeginum. Ég hef hugsað um þetta síðan ég var þrettán ára, skrifaði þetta niður á blað hjá mér að einn daginn vildi ég vera Íslandsmeistari.“

Dagbjartur vann Íslandsmótið eftir æsispennu á lokadeginum.GSÍ

Stefnir á Evrópumótaröðina

Dagbjartur tók aðeins þátt í tveimur mótum hér á landi í sumar og stóð á verðlaunapalli í bæði skipti. Hann vann Íslandsmótið og endaði í þriðja sæti í Korpubikarnum.

Einbeittur Dagbjartur á Korpubikarnum.GSÍ

Með frábært sumar að baki fer Dagbjartur nú að undirbúa sig að fullu fyrir úrtökumót inn á Evrópumótaröðina, eftir að hafa útskrifast úr háskólagolfinu í Bandaríkjunum í vor.

„Þetta voru virkilega skemmtilegir tímar í University of Missouri. Ég lærði mikið, golflega og persónulega séð líka. Nú tekur annar kafli við og ég er spenntur fyrir því“ segir Dagbjartur, sem er vongóður um að komast inn á Evrópumótaröð PGA, DP World Tour.

„Já, ég held að ég sé undirbúinn í þetta. Ég fór í fyrsta skipti þegar ég var sautján ára, árið 2019, missti af þessu með tveimur höggum þá en jú, ég er virkilega spenntur fyrir þessu.“

Bæði börnin Íslandsmeistarar en foreldrarnir spila ekki golf

Dagbjartur er ekki eini kylfingurinn í sinni fjölskyldu. Litla systir hans, Perla Sól Sigurbrandsdóttir, hefur einnig orðið Íslandsmeistari (2022) og er nú sjálf á leiðinni í háskólagolfið í Bandaríkjunum.

„[Foreldrar okkar] spila samt ekki golf sko, hún kom bara með mér út á völl og svo byrjaði þetta“ segir Dagbjartur, sem byrjaði sinn feril í golfhermi í bílskúrnum hjá vini sínum og kenndi svo systur sinni.

Foreldrar þeirra hafa því ekkert kennt þeim í golfinu, en hafa stutt bæði Dagbjart og Perlu alla leið.

Sigurbrandur Dagbjartsson hefur oft verið kylfusveinn fyrir soninn.

Dagbjartur og Perla hafa nú bæði orðið Íslandsmeistarar, Perla er því ekki lengur ein með montréttinn á heimilinu.

„Jújú, eftir sigurinn kom hún og sagði 1-1. Þetta er bara virkilega gaman og gaman að sjá hana fara líka út í háskólagolf, það verður spennandi að fylgjast með henni þar.“

Golfsystkinin unnu Björgvinsskálina og Guðfinnubikarinn, sem veittir eru bestu áhugakylfingum Íslandsmótsins. 

Perla endaði í þriðja sæti Íslandsmótsins í kvennaflokki, á eftir Huldu Clöru Gestsdóttur og Íslandsmeistaranum Guðrúnu Brá Björgvinsdóttir.

Hún lék hins vegar á besta skori áhugakylfings, líkt og Dagbjartur. Þau systkinin hlutu því Björgvinsskálina og Guðfinnubikarinn, sem eru veittir bestu áhugakylfingum Íslandsmótsins.

Rætt var við Íslandsmeistarann Dagbjart í Sportpakka Sýnar í gærkvöldi. Innslagið má sjá hér fyrir ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×