Handbolti

Sárt tap gegn Dönum á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Ágúst Guðmundsson er markahæsti maður Íslands á HM.
Ágúst Guðmundsson er markahæsti maður Íslands á HM. IHF

Eftir hetjulega baráttu og að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik urðu strákarnir okkar í íslenska U19-landsliðinu í handbolta að játa sig sigraða gegn Dönum á HM í Egyptalandi í dag, 32-30.

Íslensku strákarnir komu sér í 8-liða úrslitin með hádramatískum sigri gegn Spáni en urðu að lokum að játa sig sigraða gegn Dönum sem ekki hafa tapað leik á mótinu til þessa. Danmörk er nú þegar ríkjandi heimsmeistari A-landsliða og U21-landsliða, og freistar þess að fullkomna þrennuna í Egyptalandi. Ísland spilar hins vegar um 5.-8. sæti.

Lengi vel leit þó út fyrir að Ísland næði að slá Dani út í dag og koma sér í undanúrslitin. Staðan var til að mynda 17-12 í hálfleik eftir frábæra byrjun íslenska liðsins sem komst meðal annars í 6-3 og 12-7. Leikhlé Dana virtist lítið hjálpa og munurinn var fimm mörk í hálfleik eins og fyrr segir.

Í fyrsta sinn undir þegar þrettán mínútur voru eftir

Danir komu hins vegar sterkari til leiks í seinni hálfleik og skoruðu fyrstu þrjú mörkin. Ágúst Guðmundsson hjó á hnútinn fyrir íslenska liðið og jók muninn í 18-15 en áfram héldu Danir og minnkuðu muninn í eitt mark, 19-18, þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir.

Íslenska liðið tók þá leikhlé og skoraði mark í kjölfarið en skömmu síðar voru Danir loks búnir að jafna og komast yfir, þegar enn voru þrettán mínútur eftir.

Danir komust svo mest fimm mörkum yfir, 30-25, en Íslendingar neituðu að játa sig sigraða. Þeir skoruðu þrjú mörk í röð og minnkuðu muninn í tvö mörk þegar enn var ein og hálf mínúta til leiksloka. Danir tóku þá leikhlé, skoruðu strax í kjölfarið og unnu að lokum sigur.

Í keppni um fimmta til áttunda sæti

Það verður því Danmörk sem spilar í undanúrslitum á morgun við sigurliðið úr leik Þýskalands og Ungverjalands. Ísland spilar hins vegar við tapliðið úr þeim leik og setur nú stefnuna á að ná 5. sæti mótsins.

Ágúst Guðmundsson og Garðar Ingi Sindrason voru markahæstir Íslands í dag með átta mörk hvor og Dagur Árni Heimisson skoraði sex.

Leikurinn var í beinni útsendingu í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×