Handbolti

Gull og brons á Ólympíu­hátíð Evrópuæskunnar

Siggeir Ævarsson skrifar
Íslensku drengirnir eftir að þeir tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum
Íslensku drengirnir eftir að þeir tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum Facebook HSÍ

Íslensku U17 landsliðin í handbolta koma heim af Ólympíu­hátíð Evrópuæskunnar, sem fer fram í Skopje í Norður-Makedóníu, hlaðin verðlaunum en drengjalandsliðið tryggði sér gullverðlaunin og stúlknalandsliðið brons í dag.

Stúlkurnar léku um bronsið gegn Hollandi í morgun og unnu að lokum 31-26 sigur þar sem Laufey Helga Óskarsdóttir fór á kostum og skoraði tólf mörk. Staðan í hálfleik var 16-15 en Ísland lék mjög vel í seinni hálfleik og landaði fimm marka sigri þegar upp var staðið. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt kvennalið vinnur til verðlauna á mótinu.

Drengjalandsliðið mætti Þýskalandi í úrslitaleiknum í dag og var allt stál í stál í hálfleik, staðan 14-14. Íslensku strákarnir reyndust sterkari í seinni hálfleik og unnu að lokum þriggja marka sigur, 28-25. Markahæstur í liði Íslands var Gunnar Róbertsson með sjö mörk og Anton Frans Sigurðsson kom næstur með sex.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×