Fótbolti

Nú fengu Blikabanarnir stóran skell

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Gottskálk Þórðarson og félagar í Lech Poznan fengu stóran skell í kvöld.
Gísli Gottskálk Þórðarson og félagar í Lech Poznan fengu stóran skell í kvöld. Getty/Grzegorz Wajda

Pólska félagið Lech Poznan steinlá 1-5 á heimavelli í kvöld í fyrri leik sínum í umspili um sæti í Evrópudeildinni og geta farið að undirbúa sig fyrir að spila í Sambandsdeildinni í vetur.

Belgíska liðið Genk mætti til Poznan og fór illa með heimamenn á sama stað og Blikar töpuðu 7-1 fyrr í sumar.

Patrik Hrosovsky kom Belgunum yfir á tíundu mínútu en Filip Jagiello jafnaði fyrir pólska liðið níu mínútum síðar.

Hrosovsky skoraði aftur á 25. mínútu og kom Genk í 2-1. Síðustu þrettán mínúturnar í fyrri hálfleik voru hræðilegar fyrir Lech Poznan.

Genk skoraði þá tvívegis og klikkaði líka á víti. Bryan Heynen skoraði fyrst á 33. mínútu en Hyun-Gyu Oh kom Genk í 4-1 á 40. mínútu eftir að hafa áður klikkað á víti.

Staðan var síðan orðin 5-1 á 48. mínútu þegar Michal Gurgul sendi boltann í eigið mark.

Gísli Gottskálk Þórðarson var í byrjunarliði Lech Poznan en var tekinn af velli á 61. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×