Íslenski boltinn

Arna Ei­ríks­dóttir: „Við töpuðum tveimur stigum í dag“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Arna Eiríksdóttir skoraði annað mark FH-liðsins í kvöld.
Arna Eiríksdóttir skoraði annað mark FH-liðsins í kvöld. vísir / guðmundur

FH og Stjarnan skildu jöfn í 14. umferð Bestu deildar kvenna í dag. FH átti í erfiðleikum að brjóta niður skipulagða vörn og miðju Stjörnunnar. Með innkomu varamanna náðu gestirnir að snúa við gangi leiksins og tryggja sér eitt stig úr leiknum.

„Ég er ekki sátt með frammistöðuna í dag og ég held að enginn í liðinu sé það. Við horfum á þetta þannig að við töpuðum tveimur stigum í dag. Þessi frammistaða var ekki nógu góð,“ sagði Arna.

FH spilaði 120 mínútur þegar liðið tapaði gegn Breiðablik á laugardaginn síðastliðinn í úrslitum Mjólkurbikarsins. Það voru þreytumerki hjá flestum í FH liðinu, sem náðu samt mikilvægi stigi úr leiknum.

„Við vorum klárlega þreyttar, margir leikmenn sem hafa spilað fjóra leiki á tólf dögum. Þetta hefur verið svakaleg keyrsla og við höfum haldið nánast sama byrjunarliði í þeim öllum. Þessar stelpur sem hafa tekið þátt í nánast öllum leikjunum, 90 mínútur eða 120 mínútur eru augljóslega þreyttar. Það munaði alveg um það í dag,“ sagði Arna.

Það færðist líf og kraftur í leikinn eftir að bæði lið gerðu skiptingar í seinni hálfleik. Varamenn beggja liða sáu til þess að liðin myndu skipta stigunum á milli sín.

„Ég er stolt af þessu liði á hverjum degi, það er frábært að fá inn þessar ungu stelpur. Tvær stelpur í dag sem hefur sést lítið af í sumar. Frábært að fá Önnu Heiðu Óskarsdóttir í vörnina, það er stelpa sem á eftir að blómstra og þið munuð sjá meira af,“ sagði Arna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×