Erlent

Ör­lög Bayrou ráðast 8. septem­ber

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bayrou tók við eftir að þingmenn samþykktu vantraust á Michel Barnier og ríkisstjórn hans í desember síðastliðnum.
Bayrou tók við eftir að þingmenn samþykktu vantraust á Michel Barnier og ríkisstjórn hans í desember síðastliðnum. Getty/Ameer Alhalbi

Útlit er fyrir að François Bayrou, forsætisráðherra Frakklands, muni ekki standa af sér vantrauststillögu sem þingmenn munu greiða atkvæði um þann 8. september næstkomandi.

Atkvæðagreiðslan mun hverfast um fyrirætlanir Bayrou og ríkisstjórnarinnar um að grípa til niðurskurðaraðgerðir sem er ætlað að spara 44 milljarða evra á ársgrundvelli. Fjárlagahalli Frakklands nam 5,8 prósentum af vergri landsframleiðslu í fyrra en viðmið Evrópusambandsins er 3 prósent.

Aðgerðirnar hafa verið harðlega fordæmdar en Bayrou segir framtíð þjóðarinnar sé í húfi. Atkvæðagreiðslan muni snúast um það hvort þingmenn átti sig á hættunni sem steðjar að.

Leiðtogar fjögurra flokka hafa þegar lýst því yfir að þeir muni styðja vantraust á Bayrou og ríkisstjórn hans; forsætisráðherrann hafi grafið eigin gröf. Engin skýr meirihluti er á þinginu í kjölfar þingkosninganna sem forsetinn, Emmanuel Macron, boðaði til í fyrra.

Sérfræðingar spá því að falli Bayrou, muni Macron fremur freista þess að skipa nýjan forsætisráðherra, þann þriðja frá kosningunum í fyrra, frekar en að boða til nýrra kosninga. Hver það yrði er óljóst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×