Skoðun

Er félags­fælni­far­aldur í upp­siglingu?

Sóley Dröfn Davíðsdóttir skrifar

Áætlað er að einn af hverjum tíu þjáist af félagsfælni sem samsvarar ríflega 40.000 manns hérlendis. Vandinn einkennist af endalausum áhyggjum af áliti annarra og hamlandi kvíða í félagslegu samhengi, til dæmis þegar halda þarf fyrirlestur, leika á tónleikum eða taka til máls. Sumir hræðast aðeins afmarkaðar aðstæður eins og að halda fyrirlestra en mun fleiri hræðast hinar og þessar aðstæður, formlegar sem óformlegar. Það eitt að þurfa að mæta í fjölskylduboð getur orðið kvöl og pína. Eins og gefur að skilja hefur félagsfælni, sem oftast hefst á unglingsárum, gríðarleg áhrif á lífshlaup fólks, fái það ekki viðeigandi aðstoð. Hún getur gert það að verkum að flosnar upp úr skóla, einangrar sig, nær minni framgöngu í vinnu og á erfitt með að finna sér lífsförunaut. Fólk missir af tækifærum og þróar oft með sér þunglyndi og stundum misnotkun á vímugjöfum. Það sem er hvað mest eyðileggjandi við félagsfælnina, er að fá ekki notið sín meðal annarra, meðan maður virðist manns gaman hjá flestum öðrum.

Leynda kvíðaröskunin

Félagsfælni hefur verið nefnd leynda kvíðaröskunin því fólk ber vandann sjaldnast með sér (þótt því finnist sjálfu að félagskvíðinn standi skrifaður á ennið á því). Þetta er heldur ekki, eins og gefur að skilja, hávær hópur sem vekur athygli á málefnum sínum. Fólk þjáist í hljóði, skammast sín og telur vandann jafnvel hluta af persónuleika sínum. Raunin er hins vegar sú að félagsfælni er kvíðaröskun sem vel má ná tökum á með réttri meðferð. Hugræn atferlismeðferð ber sérlega góðan árangur og má áætla að 80% fólks nái árangri á um það bil tíu meðferðartímum hjá sálfræðingi. Flest höfum við þó einhvern félagskvíða enda stuðlar hóflegur félagskvíði að því að við vöndum okkur í samskiptum og vörumst að særa aðra. Það breytir öllu að fá rétta meðferð við félagsfælni og dregur oft verulega úr þunglyndi sem tilkomið er vegna fælninnar.

Áhyggjur af vaxandi félagskvíða

Meðferð við félagsfælni snýr að því að rjúfa vítahring fælninnar, meðal annars þjálfa fólk í því að beina athyglinni frá sér svo það verði minna upptekið af eigin frammistöðu. Eins að draga úr forðun og láta á það reyna hvað gerist ef maður bregst öðruvísi við öðrum. Hins vegar hafa samfélagslegar breytingar undanfarinna ára (auk áhrifa Covid-19) gert það að verkum að mun auðveldara er orðið að komast hjá samneyti við aðra. Afla má upplýsinga á netinu í stað þess að slá á þráðinn, senda má rafrænar afmæliskveðjur, dvelja langtímum saman í sýndarveruleika og spjalla við gervigreindina um ýmis málefni. Með gervigreindinni má búa sér til hinn „fullkomna“ vin eða maka, sem stendur og situr eins og maður vill. Vissulega hefur þessi þróun sína kosti og hentar sumum vel. Hins vegar er hætt við því að hún ýti undir félagsfælni og dragi smám saman úr færni okkar til samskipta í raunheimum. Einsemd og þunglyndi fara vaxandi á heimsvísu og er það því varhugaverð þróun að fólk sem á þarf að halda hafi sífellt skertari aðgengi að mannlegri nærveru og nánd. Svo ekki sé minnst á takmarkað aðgengi fólks að öflugri sálfræðimeðferð sökum fjárhags, þar sem hægt væri að snúa þessari þróun við. Ómeðhöndluð félagsfælni er gríðarlega kostnaðarsamur vandi á öllum sviðum, fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild. Fólk öðlast nýtt líf sem nær tökum á vandanum og hæfileikar þess fá betur notið sín, svo allir njóti góðs af.

Höfundur er yfirsálfræðingur við Kvíðameðferðarstöðina.




Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×