Innlent

Bruna­rústirnar fjar­lægðar tveimur árum eftir brunann

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Brunarústirnar við Hvaleyrarbraut. Húsið var ósamþykkt íbúðarhúsnæði en þar bjuggu samt þrettán manns.
Brunarústirnar við Hvaleyrarbraut. Húsið var ósamþykkt íbúðarhúsnæði en þar bjuggu samt þrettán manns. Vísir/Vilhelm

Samkomulag hefur náðst um niðurrif og uppbyggingu við Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði, þar sem iðnaðarhúsnæði brann til kaldra kola í ágúst 2023. Til stendur að fjarlægja brunarústirnar og hefja íbúðauppbyggingu.

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti í gær tilboð í verkin, en það hefur tekið tvö ár að ná samkomulagi við eigendur húsnæðisins.

Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði og alþingismaður, segir að málið hafi verið óvenju flókið þar sem eigendur á svæðinu séu hátt í 20 talsins. Sumar eignir hafi brunnið, aðrar ekki, og hagsmunir eigenda ólíkir.

Bærinn hafi því séð sig tilneyddan að leysa til sín lóðina í byrjun maí, og allir kjörnir fulltrúar hafi verið því sammála.

Í sumar hafi verið reynt að finna flöt á næstu skrefum í málinu, og svo hafi í vikunni borist nýtt tilboð frá hagaðilum þar sem komin var skýrari ábyrgð um hreinsun lóðarinnar en í fyrri tilboðum.

„Það er því fagnaðarefni að loks verði hægt að hreinsa svæðið og hefja íbúðauppbyggingu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×