Skoðun

Al­þjóð­legur sjálfsvígsforvarnardagur – mikil­vægi sam­tals og sam­kenndar

Ellen Calmon skrifar

Samkvæmt Alþjóðlegu sjálfsvígsforvarnarsamtökunum (International Association for Suicide Prevention) deyja um 700.000 manns úr sjálfsvígi í heiminum á ári. Sjálfsvíg snerta fólk úr öllum stéttum og samfélagshópum. Því er mikilvægt að auka fjármagn til gagnasöfnunar, rannsóknar- og forvarnarstarfs í málaflokknum. Með aukinni gagnasöfnun getum við betur kortlagt vandann sem er nauðsynlegt til að skilja þróun, setja inn bjargráð og geta gripið inn í á réttum tímapunkti. Þá þarf að tryggja fjármagn til lágþröskuldaúrræða eins þau gjaldfrjálsu meðferðarúrræði sem Píeta samtökin veita ásamt hjálparsímanum 552 2218 sem er opinn allan sólahringinn allt árið um kring. Slík verkefni eru hornsteinar í lýðheilsu samfélagsins.

Segðu það upphátt!

Í dag, þann10. september, er alþjóðlegur sjálfsvígsforvarnardagur. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á forvörnum gegn sjálfsvígum, brjóta niður skömm og þöggun í kringum geðræna erfiðleika og hvetja fólk til að tala saman og hlusta af einlægni, sýna samkennd, hlýju og virðingu.

Margir upplifa á einhverjum tímapunkti í lífinu tilfinningu sem lýsir sér sem óbærilegum sársauka – en vilja í raun ekki deyja, heldur hætta að líða illa. Það skiptir því öllu máli að rjúfa þögnina. Að ræða opinskátt um líðan, viðurkenna tilfinningar og sýna samkennd getur bjargað lífi. Gott forvarnaráð er að venja sig við að spyrja vini og fjölskyldu einfaldrar spurningar: Hvernig hefur þú það í alvöru? Og síðan að hlusta – án þess að dæma, með opnu hjarta.

Ungt fólk og eldra fólk

Sjálfsvíg snerta fólk á öllum aldri, en þrátt fyrir aukna umræðu er enn rík þörf á vitundarvakningu. Í dag langar mig til að beina sjónum að mikilvægi forvarna tveggja hópa; ungmenna og eldra fólks. Ungt fólk upplifir oft álag og tilfinningalegan óstöðugleika sem gjarnan fylgir unglingsárunum, hefur áhyggjur af framtíðinni er óöruggt með sjálfsmyndina og upplifir pressu frá samfélagsmiðlum. Þau geta átt erfitt með að tjá tilfinningar sínar og vita ekki hvar þau geta leitað hjálpar. Á sama tíma getur eldra fólk upplifað einsemd, missi, veikindi eða skerta þátttöku í samfélaginu, sem getur leitt til einmanaleika og depurðar en leita sér kannski ekki hjálpar. Við þurfum því alltaf að vera að ávarpa vandann, segja frá bjargráðum og benda á úrræði. Í dag hvet ég þig til að horfa til ungmenna og eldra fólks í þínu nærumhverfi og hlusta eftir líðan þeirra.

Með samhug, fræðslu og öflugri samfélagslegri umræðu getum við byggt upp samfélag þar sem fólk þorir að leita sér hjálpar og finnur að líf þeirra skiptir máli. Á degi sem þessum erum við minnt á mikilvægi þess að vera til staðar fyrir hvert annað – ekki aðeins í orðum, heldur einnig í verki.

Höfundur er framkvæmdastýra Píeta samtakanna.




Skoðun

Sjá meira


×