Innlent

Mikill meiri­hluti ó­á­nægður með leigubílamarkaðinn

Árni Sæberg skrifar
Föstudagskvöld í miðbæ Reykjavíkur. Mynd tengist frétt ekki beint og viðkomandi leigubílar tengjast henni ekki.
Föstudagskvöld í miðbæ Reykjavíkur. Mynd tengist frétt ekki beint og viðkomandi leigubílar tengjast henni ekki. Vísir/Vilhelm

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun eru 81 prósent þjóðarinnar óánægð með núverandi fyrirkomulag á leigubílamarkaði. 4,6 prósent eru ánægð og fjórtán prósent segjast í meðallagi ánægð.

Þetta eru niðurstöður skoðanakönnunar Maskínu, sem lögð var fram dagana 18. til 21. ágúst 2025. Svarendur voru 1.423 talsins en könnunin var lögð fyrir þjóðhóp fólks sem valinn var með handahófi úr Þjóðskrá.

Með núverandi fyrirkomulagi á leigubílamarkaði er átt við það fyrirkomulag sem komið var á með nýjum lögum um leigubifreiðaakstur árið 2022, sem tóku gildi fyrsta apríl árið eftir. Meðal þess sem lögin fólu í sér var afnám stöðvarskyldu leigubifreiða.

Svo virðist sem þessar breytingar hafi farið illa í landann miðað við niðurstöður könnunarinnar. Niðurstöðurnar eru nokkuð jafnar miðað við flokkun eftir því hversu oft svarendur nýta sér þjónustu leigubifreiða.

Maskína

Aðeins tuttugu svarendur, 1,7, prósent sögðust mjög ánægðir með fyrirkomulagið, 2,9 prósent sögðust fremur ánægð, 14 prósent sögðust í meðallagi ánægð, 25,6 prósent fremur óánægð og heil 55,7 prósent sögðust mjög óánægð. 17,2 prósent sögðust ekki vita hvort þau væru ánægð eða óánægð og 0,9 prósent vildu ekki svara.

Þau 81 prósent þjóðarinnar sem óánægð eru með fyrirkomulagið hafa vitanlega fagnað því þegar Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra boðaði breytingu á lögum um leigubifreiðaakstur til fyrra horfs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×