Upp­gjörið: FH - Fram 2-2 | Dramatík í Krikanum

Hinrik Wöhler skrifar
Hafnfirðingar verða í efri hluta Bestu-deildar karla eftir tvískiptingu
Hafnfirðingar verða í efri hluta Bestu-deildar karla eftir tvískiptingu vísir/anton

FH tók á móti Fram í 22. umferð Bestu deildar karla á Kaplakrikavelli í dag og skildu liðin jöfn, 2-2, í fjörugum leik.

Fimm lið voru að berjast um síðustu tvö sætin í efri hluta deildarinnar, þar á meðal FH og Fram. Þetta var síðasta umferðin áður en deildin skiptist í tvennt en ljóst er að Hafnfirðingar enda í efri hluta deildarinnar en Fram þarf að bíða til morguns til að sjá hvort liðið muni leika í efri eða neðri hlutanum.

Það tók gestina 16. mínútur til að brjóta ísinn. Freyr Sigurðsson fékk boltann úti hægra megin og gaf stutta sendingu á Israel Garcia Moreno. Sá síðarnefndi tók eina snertingu áður en hann lét vaða fyrir utan vítateig. Skotið var hnitmiðað, neðarlega út við stöng og Mathias Rosenorn náði ekki til boltans.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Liðin beittu löngum boltum á upphafsmínútum en þegar leið á fyrri hálfleik þá fóru Hafnfirðingar að sækja í sig veðrið.

Heimamenn fengu ágætis færi úr skyndisóknum en náðu ekki að reka smiðshöggið á sóknirnar. Það reyndi lítið á markverði liðanna í fyrri hálfleik og rann fyrri hálfleikur út í sandinn.

Gestirnir komu beittir inn í seinni hálfleik án þess þó að skapa sér hættuleg færi.

Eftir rúmlega klukkutíma leik gerði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, þrefalda breytingu og það átti eftir að breyta leik FH.

Björn Daníel Sverrisson jafnaði leikinn fyrir heimamenn eftir snarpa sókn FH. Bjarni Guðjón Brynjólfsson, sem var nýkominn inn á, lagði boltann út á Björn Daníel sem skaut viðstöðulausu skoti af stuttu færi. Óverjandi fyrir Viktor Frey Sigurðsson, markvörð Fram, og allt jafnt í Krikanum.

Hafnfirðingar voru þó ekki hættir því að þremur mínútum síðar var það varamaðurinn Bjarni Guðjón Brynjólfsson sem kom þeim yfir. Hann fékk boltann frá Böðvari Böðvarssyni rétt utan við vítateiginn og keyrði inn í vítateig. Sókninni lauk með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið og Hafnfirðingar allt í einu komnir yfir.

Jóhann Ægir Arnarsson, leikmaður FH, fékk rautt spjald á 83. mínútu eftir brot á Simon Tibbling á miðjum vellinum. Jóhann var of seinn í tæklinguna og fékk rautt spjald fyrir vikið.

Eftir rauða spjaldið breyttist takturinn í leiknum og sóttu Framarar án afláts síðustu mínútur leiksins. Það skilaði jöfnunarmarkinu en Sigurjón Rúnarsson náði að pota boltanum inn í markið af stuttu færi eftir að heimamönnum höfðu mistekist að hreinsa boltann frá.

Framarar reyndu að ná inn sigurmarkinu sem eftir lifði leiks en nær komust gestirnir ekki og jafntefli niðurstaðan.

Atvik leiksins

Það má segja að skiptingarnar hjá Heimi Guðjónssyni, þjálfara FH, hafi breytt leiknum í tvígang. FH-ingar náðu að skora tvö mörk í kjölfarið á þrefaldri skiptingu, þar sem varamaðurinn Bjarni Guðjón Brynjólfsson skorar og leggur upp.

Jóhann Ægir Arnarsson kom síðan inn á 80. mínútu en var síðan vísað af velli þremur mínútum síðar og þá breyttist leikurinn Fram í hag.

Stjörnur og skúrkar

Bjarni Guðjón Brynjólfsson breytti leiknum fyrir Hafnfirðinga með kraftmikilli innkomu, lagði upp og skoraði með þriggja mínútna millibili.

Israel Garcia Moreno átti prýðis leik á miðjunni fyrir Fram. Skoraði laglegt mark utan af velli í fyrri hálfleik og var hársbreidd frá því að gera slíkt því sama í seinni hálfleik.

Hafnfirðingar voru í fínum málum, með sigurinn vísan áður en Jóhann Ægir Arnarsson fer í glæfralega tæklingu á miðjum velli. Óþarfa brot sem mögulega kostaði FH sigurinn.

Dómarar

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi leikinn í dag og gerði það ágætlega. Hann tók stóra ákvörðun með því að gefa rautt spjald á 83. mínútu en til að réttlæta ákvörðun Vilhjálms þá fór Jóhann Ægir hátt upp með fótinn og var hvergi nærri boltanum. Vilhjálmur var í engum vafa og gaf rautt spjald um leið.

Stemning og umgjörð

Það var fínasta veður og aðstæður í Kaplakrika í dag. Það var talsvert af auðum sætum í stúkunni en rúmlega 600 manns mættu á leikinn og fengu nóg fyrir peninginn. Fjögur mörk, rautt spjald og dramatík.

Viðtöl

Heimir: „Náðum ekki að leysa varnarleikinn nægilega vel“

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, er ósigraður í síðustu sex deildarleikjum.Vísir / Anton Brink

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, segir að leikurinn hafi verið frekar kaflaskiptur og var ekki ánægður með fyrri hálfleikinn.

„Í fyrri hálfleik leyfðum við Fram að stjórna tempóinu og þeir gerðu það vel. Þeir náðu marki og svæfðu leikinn, tóku tíma í allt. Við duttum niður á þeirra plan og við vorum yfirspenntir. Ekki góðir á boltann og auðvitað stórleikur fyrir marga leikmenn,“ sagði Heimir.

Það kom meiri kraftur í Hafnfirðinga í seinni hálfleik og Heimir segir að það sé að þakka kraftmikilli innkomu varamanna.

„Í seinni hálfleik lagaðist þetta. Bjarni Guðjón, Einar Karl og Bragi komu með kraft í þetta og mér fannst við góðir í seinni hálfleik. Vorum að sigla þessu heim og áttum möguleika í skyndisóknum. Við fengum fína möguleika í stöðunni 2-1 en nýttum þá ekki nægilega.“

„Svo brýtur Jói [Jóhann Ægir] af sér og fær rautt spjald. Einum færri og Framarar með virkilega gott lið. Þeir settu okkur undir pressu og við náðum ekki að leysa varnarleikinn nægilega vel. Hvorki að loka á fyrirgjafir eða dekka í teignum,“ sagði Heimir.

„Þeir komu inn með krafti og kom sérstaklega með Einari Karli og Bjarna inn á miðjunni. Bjarni skoraði frábært mark og stóð sig vel og vonandi hjálpar þetta honum í framtíðinni.“

Heimir segir að hann sé ekki búinn að horfa á atvikið nægilega vel sem varð til þess að heimamenn urðu einum færri en þjálfarinn reynslumikli segir þó að hann hefði viljað sleppa Jóhanni með einungis gult spjald.

„Ég er ekki búinn að sjá þetta aftur en mér finnst svona tækling verðskulda gult spjald. Ef þú brýtur af þér aftur, þá færðu rautt.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira