Íslenski boltinn

KR verður án tveggja sem fengu heila­hristing á æfingu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óskar Hrafn og lærisveinar hans eiga erfiðan leik fyrir höndum.
Óskar Hrafn og lærisveinar hans eiga erfiðan leik fyrir höndum. Vísir/Ernir Eyjólfsson

KR verður án þeirra Michael Akoto og Alexanders Rafns Pálmasonar í leiknum gegn Víking í Bestu deild karla á sunnudag þar sem þeir skullu saman og fengu heilahristing á æfingu í vikunni.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari liðsins, staðfesti þetta í viðtali við Fótbolti.net í dag. Þar sagði hann að leikmennirnir hefðu skollið saman á æfingu á þriðjudaginn var og báðir fengið heilahristing.

„Það verður einhver bið á því að þeir spili.“

Oftast er miðað við að leikmenn séu frá keppni í tvær vikur hið minnsta eftir að hafa fengið heilahristing.

Hinn 27 ára gamli Akoto gekk í raðir KR á miðju tímabili og skrifaði undir samning til ársins 2027. Varnarmaðurinn hefur aðeins komið við sögu í tveimur leikjum KR til þessa og verða leikirnir ekki fleiri á næstunni.

Hinn 15 ára gamli Alexander Rafn er gríðarlegt efni og hefur þegar verið seldur til danska félagsins Nordsjælland. Mun miðjumaðurinn ganga í raðir félagsins þegar hann verður 16 ára gamall.

Í viðtali sínu við Fótbolti.net staðfesti Óskar Hrafn einnig að Eiður Gauti Sæbjörnsson og Aron Sigurðsson væru byrjaðir að æfa á nýjan leik. Það má því reikna með að þeir tvær fái mínútur í leiknum á sunnudaginn kemur.

Leikur KR og Víkings í 22. umferð Bestu deildarinnar hefst klukkan 16.30 á sunnudag. Leikurinn verður sýndur á SÝN Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×