Erlent

Banda­ríkin beittu neitunarvaldinu gegn kröfu um vopna­hlé

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Morgan Ortgus er fulltrúi Bandaríkjanna í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Morgan Ortgus er fulltrúi Bandaríkjanna í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. EPA

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kaus í dag um hvort að ráðið skyldi krefjast vopnahlés á Gasaströndinni. Fulltrúi Bandaríkjanna beitti neitunarvaldi sínu í atkvæðagreiðslunni.

Í öryggisráðinu eru alls fimmtán lönd, þar af tíu lönd sem eru skipuð á tveggja ára fresti. Fimm lönd eru hins vegar alltaf með sæti í ráðinu og hafa því neitunarvald en það eru Bandaríkin, Kína, Frakkland, Rússland og Bretland. Löndin tíu sem eru nú í ráðinu eru Alsír, Danmörk, Grikkland, Gvæjana, Pakistan, Panama, Suður-Kórea, Síerra Leóne, Slóvenía og Sómalía.

Á fundi ráðsins í dag var kosið um hvort krafist yrði „tafarlauss, skilyrðislauss og varanlegs vopnahlés á Gasaströndinni.“ Áður en fulltrúarnir greiddu atkvæði sagði Morgan Ortagus, fulltrúi Bandaríkjanna, að atkvæði hennar fyrir hönd Bandaríkjanna „kæmi ekki á óvart.“ Ástæðan sé að í kröfunni komi ekki fram fordæming á gjörðum Hamas-samtakanna né viðurkenning á rétti Ísraela til að verja sig.

„Þessi ályktun neitar að viðurkenna og leitast við að snúa aftur til misheppnaðs kerfis sem hefur gert Hamas kleift að auðga og styrkja sig á kostnað óbreyttra borgara í neyð,“ sagði Ortagus.

Þetta er í sjötta skipti sem Bandaríkin beita neitunarvaldi sínu gegn kröfunni, síðast í júní. 

Þjóðarmorð og hungursneyð

Það eru einungis tveir dagar síðan greint var frá því að rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna komst að þeirri niðurstöðu að Ísraelsríki væri að fremja þjóðarmorð á Gasa. Það var í fyrsta skipti sem nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna viðurkenndi að um þjóðarmorð væri að ræða.

Alvarlegt ástand er á Gasaströndinni en um miðjan ágústmánuð viðurkenndu Sameinuðu þjóðirnar að hungursneyð ríkti þar. Frá því að komist var að þeirri niðurstöðu hafa 154 dáið úr hungri, þar af fjórir á síðasta sólarhringnum. Þá hafa alls 98 verið drepnir af hermönnum Ísraelshers síðasta sólarhringinn og 385 særðir.

Ísraelsher herjar nú á Gasa-borg en Ísraelsher opnaði flóttaleið í gærmorgun sem átti að vera íbúum borgarinnar opin í tvo sólarhringa. Að minnsta kosti 250 þúsund manns hafa flúið borgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×