Menning

Fólk vilji ekki bara sjá þetta á Instagram

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Magnús Jóhann, Bergur, Sverrir Páll og Bjarni Frímann standa að hátíðinni State of the art.
Magnús Jóhann, Bergur, Sverrir Páll og Bjarni Frímann standa að hátíðinni State of the art. stateoftheartfestival.is

„Þetta verður upplifun sem enginn vill lenda í að sjá bara á Instagram morguninn eftir,“ segir píanósnillingurinn Magnús Jóhann Ragnarsson sem stendur fyrir menningarhátíðinni State of the Art í október. Blaðamaður ræddi við hann um mjög svo einstaka dagskrána þar sem barokk og klúbburinn blandast til dæmis saman og tennishöllin verður að dansrými.

Hátíðin er haldin í annað sinn og fer fram sjöunda til tólfta október næstkomandi.

Hvað er State of the Art?

Tónlistarhátíð þar sem sjá má fullt af spennandi og skemmtilegum tónleikum af ýmsum toga sem fólk á öllum aldri hefur gaman af. Á hátíðinni má finna dagskrárgerð sem fæst hvergi annars staðar. 

Við leggjum mikið upp úr að útbúa dagskrá sem er öðruvísi og sérstök. Til að mynda með því að stofna til samstarfs milli listafólks sem fáum myndi detta í hug að blanda saman og vera með tónleika á óvanalegum stöðum.

Hvernig kviknaði hugmyndin að þessu?

Fyrir tveimur árum hélt ég tónleikaröð í Mengi þar sem ég spilaði allar plöturnar mínar ásamt gestum. Það þótti mér svo ótrúlega skemmtilegt að ég vildi endilega gera eitthvað meira og stærra.

Sá neisti varð svo að bálinu State of the Art sem við félagarnir Sverrir Páll, Bjarni Frímann og Bergur Þórisson bjuggum til í sameiningu. 

Okkur þótti vanta vettvang fyrir meira samstarf þvert á stefnur og hátíð þar sem samtímatónlist og klassík tekur sér ekki of alvarlega og allir eru velkomnir.

Hvernig voru viðbrögðin í fyrra?

Við fengum frábærar viðtökur á fyrstu hátíðinni okkar. Nokkrir viðburðir slógu alveg sérstaklega í gegn eins og t.d. Barokk á Klúbbnum. 

Við erum að endurtaka þann viðburð vegna mikillar eftirspurnar í ár! Klassísk tónlist fær að hljóma í dansbúning á Auto í lifandi flutning strengja og trommuheila.

Persónulega þóttu mér líka tónleikar Bríetar og ADHD algjörlega ógleymanlegir en Bríet kemur einmitt aftur við sögu í Boðhlaupi söngvaskálda í ár. 

Þar koma einnig fram Jón Jónsson, GDRN, Mugison, KK, Una Torfa, Elín Hall og Bjarni Daníel, semsagt allar stærstu stjörnurnar og þau ætla öll að flytja splunkuný lög eftir hvort annað.

Hverju ertu spenntastur fyrir í ár?

Ég er spenntastur fyrir hinu alþjóðlega djasstríói Trio Holistic. Ég sá þau spila í Þýskalandi í hitt í fyrra og það var ótrúleg snilld. 

Þar koma saman ECM organistinn magnaði Kit Downes, norska trommuundrið Veslemoy Narvesen og lettneska flautudrottningin Ketija Ringa. Hin stórkostlega Róshildur ætlar að hita upp og þetta eiginlega getur ekki klikkað. Fríkirkjan á fimmtudegi, stöngin inn.

Svo verð ég eiginlega að nefna nýtt dansverk sem ég er að frumflytja með Íris Ásmundar og Karítas Lottu í badmintonhöllinni TBR. Það verður upplifun sem enginn vill lenda í að sjá bara á Instagram morguninn eftir.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um hátíðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.