Íslenski boltinn

Höskuldur um víta­spyrnu­dóminn um­deilda: „Grimmt að dæma hendi á þetta“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Höskuldur skoraði mark Breiðabliks úr vítaspyrnu en reynir hér að gera slíkt hið sama úr aukaspyrnu.
Höskuldur skoraði mark Breiðabliks úr vítaspyrnu en reynir hér að gera slíkt hið sama úr aukaspyrnu. Vísir/Diego

„Þetta var mjög súrt sko. Fannst við koma á Hlíðarenda og taka frumkvæðið. Hefði viljað fá meira úr fyrri hálfleiknum sérstaklega,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði og markaskorari Breiðabliks, við Gunnlaug Jónsson eftir að hans menn gerðu 1-1 jafntefli á Hlíðarenda í sannkölluðum stórleik í Bestu deild karla í fótbolta.

Blikar voru hársbreidd frá mikilvægum sigri en í uppbótatíma fékk liðið á sig vítaspyrnu eftir að boltinn fór í hönd Valgeirs Valgeirssonar. Skömmu áður hafði Hólmar Örn Eyjólfsson, miðvörður Vals, rekið hendina í knöttinn sem fór þaðan aftur fyrir. Heimamenn fengu hins vegar hornspyrnu og upp úr því kom jöfnunarmarkið.

„Var að eins að tala við dómarateymið, ætla ekki að vera með dóma á dóminn en mér fannst þetta vera kúluspil af stuttu færi. Finnst grimmt að dæma hendi á þetta, eins og þetta sé bara kallað. Hólmar búinn að slá boltann út af í hornspyrnu mínútu áður. En ég ætla ekki að svekkja mig of mikið á því. Liðið flott, fannst við eiga sigur skilið en súr endir.“

Breiðablik vann síðast deildarleik 19. júlí. Hvað veldur?

„Fimmta mínúta í uppbót olli því í dag. Það er örugglega margþætt. svo að einhverju leyti verður það sálrænt. Fannst við flottir í dag, fannst við ekki mæta eins og lið sem væri lítið í sér. Mættum á erfiðan útivöll, einn erfiðasta útivöllinn í ár og eiga meira skilið úr þessum leik.

Gulli spurði Höskuld út í umræðuna í kringum liðið.

„Eflaust út á við, fannst þú bara þurfa horfa á samstöðuna inn á vellinum í dag og hverjir voru betri í dag fannst mér til að segja hvernig við leikmenn erum stemmdir. Við látum þetta ekkert skilgreina okkur þó við séum á lélegu rönni.

„Við viljum náttúrulega bæta úr því sem leikmenn, langt frá því að vera einhver óeining eða lítil trú á því sem lagt er upp með í leikjum. Ef við horfum á leikinn í dag er eflaust öll tölfræði helvíti góð nema við mættum fara betur með sóknarstöðurnar.“

Að endingu var Höskuldur spurður út í Evrópubaráttuna þegar fjórir leikir eru eftir.

„Hún er hörð og verður, ekki flóknara en það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×