Skoðun

Lyfja­fræðingar - traustur stuðningur í flóknum heimi

Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir skrifar

Það getur margborgað sig að þekkja til þess hvernig lyf eru uppgötvuð, prófuð, framleidd, þróuð, vottuð, notuð og misnotuð. Nýleg dæmi sanna að ekki er á allra valdi að túlka lyfjavirkni og aukaverkanir, jafnvel valdamestu menn heims geta hnotið um staðreyndir og farið með fleipur. Þá er ágætt að hafa hugfast að ein aðgengilegasta heilbrigðisstéttin er tilbúin til svara. Lyfjafræðingar eru, einir heilbrigðisstétta, menntaðir til þess að þekkja allan lífsferil lyfja. Í dag er alþjóðlegur dagur lyfjafræðinga og því ber að fagna.

Lyfjafræðingar sinna fjölmörgum hlutverkum í samfélaginu. Þeir uppgötva, rannsaka, þróa og tryggja öryggi lyfja. Á heilsugæslum og sjúkrahúsum fræða þeir aðrar heilbrigðisstéttir um lyf, blanda lyf, sinna lyfjarýni og niðurtröppun. Sú vinna bætir heilsu sjúklinga og nýtir auð heilbrigðiskerfisins betur. Í apótekum veita lyfjafræðingar ráðgjöf, tryggja rétta notkun lyfja og koma í veg fyrir mistök sem rata ekki í fréttirnar en skipta líf og heilsu skjólstæðinga máli.

Víða erlendis hafa lyfjafræðingar þegar tekið að sér enn stærra hlutverk. Bólusetningar, lyfjayfirferð og jafnvel lyfjaávísanir er hluti af daglegu starfi þeirra. Þessi þróun sýnir að með nýtingu sérfræðiþekkingar lyfjafræðinga geta þeir tekið þátt í að mæta áskorunum heilbrigðiskerfa, áskorunum sem eru sameiginlegar öllum löndum: íbúar eldast, lyfjameðferðir verða flóknari og heilbrigðiskostnaður fer hækkandi. Á Alþjóðadegi lyfjafræðinga er rétt að staldra við, horfa á framlag stéttarinnar og fagna því mikla sem lyfjafræðingar hafa fram að færa til bættrar heilbrigðisþjónustu við almenning. Í heimi þar sem rangar upplýsingar geta borist hratt er gott að vita að sérfræðingar séu til taks, til að leiðrétta yfirlýsingar og styðja við samfélagið. Til hamingju með daginn, kæru lyfjafræðingar. Þið eruð ómissandi stoð heilbrigðiskerfisins.

Höfundur er formaður Lyfjafræðingafélags Íslands. 

Lyf



Skoðun

Sjá meira


×