Giroud tryggði sigurinn eftir mark Sæ­vars

Olivier Giroud skoraði sigurmark Lille í Íslendingaslag kvöldsins.
Olivier Giroud skoraði sigurmark Lille í Íslendingaslag kvöldsins. Getty/Stefano Guidi

Íslendingaliðin Lille og Brann áttust við í Evrópudeildinni í fótbolta. Lille vann 2-1 sigur þökk sé skallamarki Olivier Giroud seint í leiknum en Sævar Atli Magnússon komst á blað hjá Brann á meðan Hákon Arnar Haraldsson leiddi sína menn til leiks.

Hákon Arnar Haraldsson var með fyrirliðabandið er Lille mætti Brann í Íslendingaslag í fyrstu umferð Evrópudeildarinnar. Sævar Atli Magnússon var í byrjunarliði Freys Alexanderssonar, þjálfara Brann.

Líkt og við mátti búast var Lille hættulegri aðilinn í leiknum gegn Brann-liði sem lá til baka og freistaði þess að beita skyndisóknum. Staðan var markalaus í hléi en níu mínútur voru liðnar af þeim síðari þegar Hamza Igamane kom Lille yfir með marki af stuttu færi eftir góðan undirbúning Matias Fernandez en heldur slappan varnarleik norsku gestanna.

Freyr brást hratt við eftir markið og Eggert Aron Guðmundsson kom inn af varamannabekk Brann strax í kjölfar marksins.

Það virtist gefa kraft. Hákon Arnar missti boltann klaufalega á miðjum velli, Brann-menn gáfu 3-4 sendingar, boltinn hafnaði hjá Sævari Atla sem tók við honum hægra megin í teignum og lagði fram hjá markverði þeirra frönsku. Staðan 1-1 og Sævar virðist meðvitaður um að Ryder-bikarinn sé á næsta leiti, tók þessa fínu golfsveiflu til að fagna markinu.

Olivier Giroud, markahæsti landsliðpsmaður Frakka frá upphafi, kom inn af varamannabekk Lille fyrir lokakaflann. Á 80. mínútu skoraði hann það sem reyndist sigurmarkið með hörkuskalla eftir fyrirgjöf Tiago Santos frá hægri.

Lille vann 2-1 og er með þrjú stig í deildarkeppni Evrópudeildarinnar eftir fyrsta leikinn en Brann leitar sinna fyrstu stiga um sinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira