Handbolti

Janus marka­hæstur í frá­bærum sigri á PSG

Valur Páll Eiríksson skrifar
Janus Daði skoraði sjö mörk í kvöld, þar á meðal síðustu tvö mörk Szeged sem réðu úrslitum.
Janus Daði skoraði sjö mörk í kvöld, þar á meðal síðustu tvö mörk Szeged sem réðu úrslitum.

Janus Daði Smárason réði úrslitum er Pick Szeged vann glæsilegan 31-29 sigur á Paris Saint-Germain í Ungverjalandi í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld.

Szeged og PSG voru jöfn að stigum í riðli sínum fyrir leik kvölds, höfðu hvort um sig unnið einn leik en tapað öðrum.

Frönsku gestirnir byrjuðu betur í Szeged í kvöld og komust mest fjórum mörkum yfir snemma leiks, 9-5. Við tók góður kafli heimamanna sem jöfnuðu leikinn 12-12 og eftir það var skipst á að skora. Staðan í hálfleik jöfn 17-17 og Janus Daði með þrjú marka heimamanna fyrir hlé.

Meira af því sama tók við eftir hlé. Szeged skoraði fyrsta markið og liðin skiptust á forystunni. Þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir hafði hvorugt liðanna náð meira en eins marks forystu allan síðari hálfleikinn en Szeged yfirleitt skrefinu á undan.

Loks náði Szeged tveggja marka forystu, 30-28, með marki Janusar Daða þegar 90 sekúndur lifðu leiks.

Janus Daði innsiglaði svo sigur Szeged þegar um 25 sekúndur voru eftir og skoraði því síðustu tvö mörk heimamanna í leiknum. PSG skoraði sárabótamark á lokasekúndunni en 31-29 úrslit leiksins.

Janus Daði var markahæstur á vellinum með sjö mörk, en liðsfélagi hans Imanol Alustiza gerði slíkt hið sama og Sebastian Karlsson skoraði sjö mörk fyrir PSG.

Szeged er eftir sigurinn með fjögur stig eftir þrjá leiki í riðlinum.

Einn annar leikur var á dagskrá í riðlinum. Barcelona vann þægilegan 32-25 útisigur á Zagreb þar sem Viktor Gísli Hallgrímsson sat á bekknum á meðan Daninn Emil Nielsen stóð allan leikinn á milli stanganna.

Í kvöld mætir Íslendingalið Magdeburgar pólska liðinu Wisla Plock í sama riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×