Erlent

Adams hættir og Cuomo og Mamdani skiptast á skotum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Adams hefur dregið sig úr kapphlaupinu en verður engu að síður á kjörseðlunum, þar sem það er of seint að fella nafnið hans brott.
Adams hefur dregið sig úr kapphlaupinu en verður engu að síður á kjörseðlunum, þar sem það er of seint að fella nafnið hans brott. Getty/Adam Gray

Eric Adams, borgarstjóri New York, hefur ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri. Hann var kjörinn borgarstjóri sem Demókrati en bauð sig fram til endurkjörs sem óháður, eftir að hafa sætt ákærum fyrir spillingu.

Ákærurnar voru felldar niður eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti komst aftur til valda en Adams sagði í gær að stöðug fjölmiðlaumfjöllun um framtíð hans hefði hamlað kosningabaráttunni. Þá játaði hann að hafa glatað trausti hluta borgarbúa en sagðist engu að síður saklaus.

Borgarstjórinn var meðal annars sakaður um að hafa tekið við ólöglegum fjárframlögum og þegið gjafir frá erlendum aðilum.

Gengið verður til kosninga í nóvember en fyrir um það bil þremur vikum, þegar Adams sagðist enn hafa í hyggju að vera á kjörseðlinum, bárust frengir af því að stjórnvöld hefðu boðið honum sendiherrastöðu gegn því að draga sig úr kapphlaupinu.

Trump er sagður styðja Andrew Cuomo, fyrrverandi ríkisstjóra New York, gegn borgarstjóraefni Repúblikanaflokksins og kandídat Demókrataflokksins; Zohran Mamdani.

Cuomo fagnaði ákvörðun Adams í gær og hrósaði honum fyrir að setja hag borgarbúa framar sínum eigin. Þá sagði ríkisstjórinn fyrrverandi að íbúar stæðu andspænis öfgaöflum sem myndu rústa borginni af annað hvort vanhæfni eða vanþekkingu. 

Þarna var hann án efa að vísa til Mamdani, sem hægrimenn hafa kallað öfgasósíalista.

Mamdani brást við með því að segjast myndu sigra Cuomo í annað sinn, líkt og hann gerði í forkjörinu hjá Demókrataflokknum.

„Andrew Cuomo: Þér varð að ósk þinni. Þú vildir fá Trump og milljarðamæringa vini þína til að hjálpa þér að hreinsa út af vellinum,“ sagði Mamdani á samfélagsmiðlum. „En ekki gleyma því að þú vildir einnig etja kappi við mig í forkosningunum. Og við unnum þig með þrettán stigum. Hlakka til að gera það aftur fjórða nóvember.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×