Erlent

Að­stoðar­maður AfD-leið­toga í fangelsi fyrir njósnir

Kjartan Kjartansson skrifar
Maximilian Krah var Evrópuþingmaður AfD. Hann er sakaður um að hafa þegið mútur frá Kínverjum og Rússum og aðstoðarmaður hans var dæmdur fyrir njósnir í þágu Kínverja í dag.
Maximilian Krah var Evrópuþingmaður AfD. Hann er sakaður um að hafa þegið mútur frá Kínverjum og Rússum og aðstoðarmaður hans var dæmdur fyrir njósnir í þágu Kínverja í dag. AP/Michael Kappeler/DPA

Dómstóll í Dresen dæmdi aðstoðarmann fyrrverandi Evrópuþingmanns öfgahægriflokksins Valkosts fyrir Þýskaland í tæplega fimm ára fangelsi fyrir njósnir í þágu Kínverja. Þingmaðurinn segist hafa verið grunlaus um njósnir aðstoðarmannsins þótt hann hafi sjálfur verið rannsakaður fyrir að þiggja mútur frá Kína og Rússlandi.

Jian Guo, þýskur ríkisborgari af kínverskum uppruna, var aðstoðarmaður Maximilians Krah þegar hann var Evrópuþingmaður Valkosts fyrir Þýskaland (AfD). Þýska lögreglan handtók Guo í apríl í fyrra en hann var sakaður um að hafa verið útsendari kínversku leyniþjónustunnar um árabil.

Saksóknarar héldu því fram að Guo hefði komið upplýsingum um samningaviðræður og ákvarðanir Evrópuþingsins til kínversku leyniþjónustunnar, safnað upplýsingum um leiðtoga AfD og njósnað um kínverska stjórnarandstæðinga og andófsfólk.

Guo lýsti yfir sakleysi sínu en hlaut engu að síður fjögurra ára og níu mánaða fangelsisdóm í dag, að sögn dagblaðsins Politico.

Krah, sem situr nú á þýska þinginu fyrir AfD, sagði fyrir dómi að hann hefði ekki vitað af njósnunum. Hann hefði aðeins ráðið Guo vegna tungumálahæfileika hans og reynslu. 

Húsleit var gerð á skrifstofu þingmannsins fyrr í þessum mánuði og þýska þingið svipti hann friðhelgi vegna rannsóknar á meintri mútuþægni hans. Hann heldur því fram að rannsóknin eigi sér pólitískar rætur.


Tengdar fréttir

AfD náði ekki að sigra eftir hrinu hneykslis­mála

Fjarhægriflokknum Valkosti fyrir Þýskaland (AfD) tókst ekki að tryggja sér neina sigra þrátt fyrir að hann bætti stöðu sína í kosningum í höfuðvígi sínu í Austur-Þýskalandi um helgina. Hvert hneykslismálið hefur rekið annað hjá flokknum síðustu vikurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×